Uppgjörið: KA - KR 0-4 | Gott gengi KR heldur áfram Einar Kárason skrifar 6. október 2024 16:00 KR lenti ekki í teljandi vandræðum á Akureyri. Vísir/Diego KA tók á móti KR á Akureyri í dag en fyrir leik voru gestirnir enn í fallhættu á meðan Akureyringar sátu í efsta sæti neðri helmings Bestu deildarinnar. KR-ingar mættu fullir sjálfstrausts inn í leikinn og unnu sannfærandi 0-4 sigur gegn lúnum KA-mönnum. Viðar Örn Kjartansson var nálægt því að komast í gegnum vörn KR strax á upphafsmínútum en frábær tækling Alex Þórs Haukssonar kom í veg fyrir að Viðar næði skoti að marki. Gestirnir fengu svo hörkufæri mínútum síðar eftir mistök í vörn heimamanna en Steinþór Már Auðunsson varði frá Benoný Breka Andréssyni, sem hefur verið iðinn við kolann í sumar. Steinþór kom hins vegar engum vörnum við á áttundu mínútu þegar Birgir Steinn Styrmisson braut ísinn og kom KR yfir með skoti við vítateigslínu. Luke Rae tvöfaldaði síðan forustuna eftir stundarfjórðungs leik með skoti úr teig eftir sendingu Benonýs Breka, aftur eftir vesen í vörn KA. Staðan 0-2 og heimamenn ringlaðir. Eftir annað mark gestanna var ekki mikið um færi en á lokamínútu fyrri hálfleiks var vítaspyrna dæmd þegar Alex Þór braut á Viðari Erni. Viðar fór sjálfur á punktinn en spyrna hans arfaslök og beint í hramma Guy Smit í marki KR. Viðari setti boltann á mitt markið, en af engum krafti og Guy þurfti ekki að gera annað en að bíða eftir að boltinn endaði í höndum sínum. KA gerði þrjár breytingar í hálfleik í leit að leið inn í leikinn að nýju en þrátt fyrir ágætis spilamennsku á köflum gekk ekkert upp. Þegar stundarfjórðungur var eftir leit þriðja mark leiksins ljós en þar var að verki varamaðurinn Eyþór Aron Wöhler sem skoraði með snotrum skalla úr teig eftir sendingu Luke Rae en áfram komu mörkin eftir vandræðagang í öftustu línu heimamanna. Síðasti naglinn var svo negldur þegar Benoný Breki komst á blað undir lok leiks eftir skemmtilegt samspil KR. Aron Þórður Albertsson fann Benoný í hlaupinu sem lagði boltann í hornið framhjá Steinþóri. Stuttu síðari flautaði Jóhann Ingi Jónsson dómari leiksins leikinn af og frábær stórsigur Vesturbæinga á lúnum Akureyringum staðreynd. Atvikið Það er eitt stórt atvik í þessum leik og atvik sem mögulega hefði getað breytt einhverju í leik heimamanna í síðari hálfleik en það er vítaspyrnan sem fór forgörðum í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Viðar Örn sendi þá boltann í hendurnar á Guy sem þakkaði kærlega fyrir áður en KR gekk en frekar á lagið í síðari hálfleik. Stjörnur og skúrkar Hver einn og einasti í hvítsvartri röndóttri treyju gekk af velli sem skínandi stjarna. Frábær frammistaða. Benoný Breki átti afbragðsleik og Luke Rae sömuleiðis. Atli Sigurjónsson var mættur „heim“ og átti sömuleiðis glimrandi leik vinstra megin í öftustu varnarlínu. Guy ver víti. Aron og Alex frábærir. Ég gæti skrifað fleiri nöfn en læt hér við sitja. KA liðið í heild var hins vegar ekki upp á sitt besta í dag. Darko Bulatovic lék fyrri hálfleikinn vinstra megin í öftustu línu og var tekinn af velli í hálfleik eftir 45 mínútur sem hann vill gleyma sem fyrst. Viðar Örn. Vítið. Nóg um það sagt. Hallgrímur, þjálfari KA, sagði líklega allt sem segja þarf í viðtali í lok leiks. Slakt hugarfar og grunnvinnan ekki til staðar. Umgjörð og stemmning Veglegar veitingar eru alltaf á boðstólnum hjá KA mönnum og engin breyting var á því í dag. Stúkan var þétt setin en lítið var um stuðningssöngva og annað slíkt. Það var kalt og fólk mögulega að huga að því að næla sér ekki í kvef. Dómarinn Jóhann Ingi Jónsson og hans teymi áttu fínan leik. Ekkert út á hann að setja. Vítaspyrnudómurinn virkar réttur og ekki var mikið um stórar ákvarðanir en það sem þurfti að halda utan um gerði hann vel. Þrátt fyrir köll og hróp við og við úr stúkunni þá getur hann og hans föruneyti gengið stolt frá leiknum. „Þú ert skilgreindur af nútíðinni“ Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var eðlilega ánægður að leikslokum.Vísir/Viktor Freyr „Frábær frammistaða í fyrri hálfleik. Sérstaklega fyrstu 35. KA er með gott lið og fyrstu tuttugu í seinni hálfleik féllum við aftarlega og berjast fyrir lífi okkar en mér fannst við síðan ná að vinna okkur út úr því. Mörkin sem við skorum undir, sérstaklega fjórða markið, voru frábær.“ „Þú ert skilgreindur af nútíðinni. Menn geta fallið í þá gryfju eftir Framleikinn að þeir séu búnir að sigra heiminn og væru það æðislegir að þeir þyrftu ekki að hafa fyrir hlutunum en því miður er það ekki þannig í fótbolta. Mér fannst við fylgja þeim leik vel eftir í dag þannig að ég er mjög stoltur af liðinu.“ „Það voru mörg fín augnablik í þessum leik og þegar við vorum rólegir með boltann og héldum honum á miðjum vellinum og fórum ekki of snemma út á kantana vissum við að þeir gætu lent í smá basli. Það vantaði aðeins upp á í 20 mínútur. Um leið og við fórum að velja og standa rétt og spila milli lína á réttum tíma þá vorum við góðir. Ég er þjálfari og er glaður með að það sé komið samhengi í frammistöður. Það hanga núna saman tvær frammistöður en auðvitað er það þannig að við verðum að nota landsleikjahléið vel og koma grimmir inn á móti Fylki. Með sama hugarfar og sama kraft.“ „Við þurfum núna að einbeita okkur að Fylkisleiknum. Það er smá andrými til að hvílast á líkama og sál. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og tengja saman góðar frammistöður. Það er mikilvægt upp á sjálfstraust og mikilvægt fyrir næsta ár að enda tímabilið vel. Það byrjar í Árbænum eftir tvær vikur.“ „Nenntum ekki að hlaupa nóg og unnum ekki návígi“ „Þetta var sanngjarnt 4-0 tap,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.vísir/Diego „Þetta var sanngjarnt 4-0 tap,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. „KR-ingar voru betri en við í dag og ég myndi segja að þetta væri fyrsti leikurinn í sumar þar sem hugarfar okkar var slakt. Mér líður eins og einhver blaðra hafi sprungið. Eftir bikarinn náðum við að gera vel. Fjögur stig úr tveimur leikjum en núna áttum við erfitt með að gera þau grunngildi sem þú þarft til að eiga möguleika á að vinna. KR gekk á lagið og skoraði fjögur mörk.“ KA fékk dauðafæri á að komast inn í leikinn með vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks „Þetta var bara víti og hann ákveður að chippa á mitt markið. Þegar markmaður fer ekki þá lítur þetta illa út. In the end er þetta bara klúðrað víti. Það tapaði ekki leiknum í dag, heldur grunnvinnan. Að maður hjálpi félaganum. Við nenntum ekki að hlaupa nóg og unnum ekki návígi. Hugarfarið, hvort sem það er eðlilegt eða ekki eftir það sem á undan hefur gengið, þá höfum við engan áhuga á að spila svona leiki. Það eru tveir leikir eftir. Nú er smá frí og við komum til baka og komum með betra hugarfar í síðustu tvo leikina.“ „Það eru fínir spilkaflar og ef maður grefur djúpt eftir jákvæðni þá eru ungir strákar spila sem lögðu sig fram og gerðu vel. Við fáum færi en það breytir því ekki að með svona frammistöðu áttu ekki skilið að vinna. Þeir hefði líka getað skorað fleiri. Strákarnir eru svekktir með sjálfa sig. Við þurfum að læra af þessu. Við þurfum að grafa djúpt og finna hvatningu til að spila síðustu tvo leikina. Okkur langar að ná 7. sætinu og þá þurfum við heldur betur að koma með betra hugarfar.“ Besta deild karla KA KR
KA tók á móti KR á Akureyri í dag en fyrir leik voru gestirnir enn í fallhættu á meðan Akureyringar sátu í efsta sæti neðri helmings Bestu deildarinnar. KR-ingar mættu fullir sjálfstrausts inn í leikinn og unnu sannfærandi 0-4 sigur gegn lúnum KA-mönnum. Viðar Örn Kjartansson var nálægt því að komast í gegnum vörn KR strax á upphafsmínútum en frábær tækling Alex Þórs Haukssonar kom í veg fyrir að Viðar næði skoti að marki. Gestirnir fengu svo hörkufæri mínútum síðar eftir mistök í vörn heimamanna en Steinþór Már Auðunsson varði frá Benoný Breka Andréssyni, sem hefur verið iðinn við kolann í sumar. Steinþór kom hins vegar engum vörnum við á áttundu mínútu þegar Birgir Steinn Styrmisson braut ísinn og kom KR yfir með skoti við vítateigslínu. Luke Rae tvöfaldaði síðan forustuna eftir stundarfjórðungs leik með skoti úr teig eftir sendingu Benonýs Breka, aftur eftir vesen í vörn KA. Staðan 0-2 og heimamenn ringlaðir. Eftir annað mark gestanna var ekki mikið um færi en á lokamínútu fyrri hálfleiks var vítaspyrna dæmd þegar Alex Þór braut á Viðari Erni. Viðar fór sjálfur á punktinn en spyrna hans arfaslök og beint í hramma Guy Smit í marki KR. Viðari setti boltann á mitt markið, en af engum krafti og Guy þurfti ekki að gera annað en að bíða eftir að boltinn endaði í höndum sínum. KA gerði þrjár breytingar í hálfleik í leit að leið inn í leikinn að nýju en þrátt fyrir ágætis spilamennsku á köflum gekk ekkert upp. Þegar stundarfjórðungur var eftir leit þriðja mark leiksins ljós en þar var að verki varamaðurinn Eyþór Aron Wöhler sem skoraði með snotrum skalla úr teig eftir sendingu Luke Rae en áfram komu mörkin eftir vandræðagang í öftustu línu heimamanna. Síðasti naglinn var svo negldur þegar Benoný Breki komst á blað undir lok leiks eftir skemmtilegt samspil KR. Aron Þórður Albertsson fann Benoný í hlaupinu sem lagði boltann í hornið framhjá Steinþóri. Stuttu síðari flautaði Jóhann Ingi Jónsson dómari leiksins leikinn af og frábær stórsigur Vesturbæinga á lúnum Akureyringum staðreynd. Atvikið Það er eitt stórt atvik í þessum leik og atvik sem mögulega hefði getað breytt einhverju í leik heimamanna í síðari hálfleik en það er vítaspyrnan sem fór forgörðum í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Viðar Örn sendi þá boltann í hendurnar á Guy sem þakkaði kærlega fyrir áður en KR gekk en frekar á lagið í síðari hálfleik. Stjörnur og skúrkar Hver einn og einasti í hvítsvartri röndóttri treyju gekk af velli sem skínandi stjarna. Frábær frammistaða. Benoný Breki átti afbragðsleik og Luke Rae sömuleiðis. Atli Sigurjónsson var mættur „heim“ og átti sömuleiðis glimrandi leik vinstra megin í öftustu varnarlínu. Guy ver víti. Aron og Alex frábærir. Ég gæti skrifað fleiri nöfn en læt hér við sitja. KA liðið í heild var hins vegar ekki upp á sitt besta í dag. Darko Bulatovic lék fyrri hálfleikinn vinstra megin í öftustu línu og var tekinn af velli í hálfleik eftir 45 mínútur sem hann vill gleyma sem fyrst. Viðar Örn. Vítið. Nóg um það sagt. Hallgrímur, þjálfari KA, sagði líklega allt sem segja þarf í viðtali í lok leiks. Slakt hugarfar og grunnvinnan ekki til staðar. Umgjörð og stemmning Veglegar veitingar eru alltaf á boðstólnum hjá KA mönnum og engin breyting var á því í dag. Stúkan var þétt setin en lítið var um stuðningssöngva og annað slíkt. Það var kalt og fólk mögulega að huga að því að næla sér ekki í kvef. Dómarinn Jóhann Ingi Jónsson og hans teymi áttu fínan leik. Ekkert út á hann að setja. Vítaspyrnudómurinn virkar réttur og ekki var mikið um stórar ákvarðanir en það sem þurfti að halda utan um gerði hann vel. Þrátt fyrir köll og hróp við og við úr stúkunni þá getur hann og hans föruneyti gengið stolt frá leiknum. „Þú ert skilgreindur af nútíðinni“ Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var eðlilega ánægður að leikslokum.Vísir/Viktor Freyr „Frábær frammistaða í fyrri hálfleik. Sérstaklega fyrstu 35. KA er með gott lið og fyrstu tuttugu í seinni hálfleik féllum við aftarlega og berjast fyrir lífi okkar en mér fannst við síðan ná að vinna okkur út úr því. Mörkin sem við skorum undir, sérstaklega fjórða markið, voru frábær.“ „Þú ert skilgreindur af nútíðinni. Menn geta fallið í þá gryfju eftir Framleikinn að þeir séu búnir að sigra heiminn og væru það æðislegir að þeir þyrftu ekki að hafa fyrir hlutunum en því miður er það ekki þannig í fótbolta. Mér fannst við fylgja þeim leik vel eftir í dag þannig að ég er mjög stoltur af liðinu.“ „Það voru mörg fín augnablik í þessum leik og þegar við vorum rólegir með boltann og héldum honum á miðjum vellinum og fórum ekki of snemma út á kantana vissum við að þeir gætu lent í smá basli. Það vantaði aðeins upp á í 20 mínútur. Um leið og við fórum að velja og standa rétt og spila milli lína á réttum tíma þá vorum við góðir. Ég er þjálfari og er glaður með að það sé komið samhengi í frammistöður. Það hanga núna saman tvær frammistöður en auðvitað er það þannig að við verðum að nota landsleikjahléið vel og koma grimmir inn á móti Fylki. Með sama hugarfar og sama kraft.“ „Við þurfum núna að einbeita okkur að Fylkisleiknum. Það er smá andrými til að hvílast á líkama og sál. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og tengja saman góðar frammistöður. Það er mikilvægt upp á sjálfstraust og mikilvægt fyrir næsta ár að enda tímabilið vel. Það byrjar í Árbænum eftir tvær vikur.“ „Nenntum ekki að hlaupa nóg og unnum ekki návígi“ „Þetta var sanngjarnt 4-0 tap,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.vísir/Diego „Þetta var sanngjarnt 4-0 tap,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. „KR-ingar voru betri en við í dag og ég myndi segja að þetta væri fyrsti leikurinn í sumar þar sem hugarfar okkar var slakt. Mér líður eins og einhver blaðra hafi sprungið. Eftir bikarinn náðum við að gera vel. Fjögur stig úr tveimur leikjum en núna áttum við erfitt með að gera þau grunngildi sem þú þarft til að eiga möguleika á að vinna. KR gekk á lagið og skoraði fjögur mörk.“ KA fékk dauðafæri á að komast inn í leikinn með vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks „Þetta var bara víti og hann ákveður að chippa á mitt markið. Þegar markmaður fer ekki þá lítur þetta illa út. In the end er þetta bara klúðrað víti. Það tapaði ekki leiknum í dag, heldur grunnvinnan. Að maður hjálpi félaganum. Við nenntum ekki að hlaupa nóg og unnum ekki návígi. Hugarfarið, hvort sem það er eðlilegt eða ekki eftir það sem á undan hefur gengið, þá höfum við engan áhuga á að spila svona leiki. Það eru tveir leikir eftir. Nú er smá frí og við komum til baka og komum með betra hugarfar í síðustu tvo leikina.“ „Það eru fínir spilkaflar og ef maður grefur djúpt eftir jákvæðni þá eru ungir strákar spila sem lögðu sig fram og gerðu vel. Við fáum færi en það breytir því ekki að með svona frammistöðu áttu ekki skilið að vinna. Þeir hefði líka getað skorað fleiri. Strákarnir eru svekktir með sjálfa sig. Við þurfum að læra af þessu. Við þurfum að grafa djúpt og finna hvatningu til að spila síðustu tvo leikina. Okkur langar að ná 7. sætinu og þá þurfum við heldur betur að koma með betra hugarfar.“