Óskar Hrafn Þorvaldsson, núverandi þjálfari KR, var duglegur að sækja leikmenn þegar hann sinnti starfi yfirmanns knattspyrnudeildar KR og sótti nokkra leikmenn í sumarglugganum. Hann er hvergi hættur og nú hefur KR tilkynnt komu þriggja leikmanna frá Fjölni á aðeins tveimur dögum.
Hvað varðar tvíeykið sem samdi í þá er markvörðurinn Halldór Snær fæddur 2004 og skrifar undir fjögurra ára samning við KR. Hann hefur spilað 40 leiki fyrir Fjölni í Lengjudeildinni og átta leiki fyrir U-19 ára landslið Íslands.
Halldór Snær var lykilmaður Fjölnis á nýafstöðnu tímabili þar sem liðið féll úr leik í umspilinu um sæti í Bestu deildinni. Á lokahófi félagsins var hann valinn leikmaður ársins hjá félaginu.

Miðvörðurinn Júlíus Mar er einnig fæddur 2004 og skrifar sömuleiðis undir fjögurra ára samning. Hann er „kraftmikill og leikinn“ hafsent sem hefur verið lykilmaður Fjölnis undanfarin ár.
Júlíus Mar á að baki 83 leiki fyrir Fjölni og þrjá með U-19 ára landsliði Íslands. Hann var valinn í lið ársins í Lengjudeildinni hjá Fótbolti.net.
KR er í 9. sæti Bestu deildar karla með 25 stig, fjórum frá fallsæti, þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.