Enski boltinn

„Okkur er sama hvað öðrum finnst um okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk og félagar í Liverpool hafa haldið hreinu í fimm af fyrstu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Virgil van Dijk og félagar í Liverpool hafa haldið hreinu í fimm af fyrstu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. getty/Julian Finney

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, var sáttur með að fara frá Selhurst Park með þrjú stig. Hann hrósaði varnarleik Rauða hersins á tímabilinu.

Liverpool vann 0-1 sigur á Crystal Palace í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Gestirnir frá Bítlaborginni þurftu að fara mikið fyrir sigrinum en lönduðu stigunum þremur. Diogo Jota skoraði mark Liverpool.

„Það er erfitt að koma hingað. Leikirnir hérna síðustu ár hafa verið jafnir. Mér fannst við skora frábært mark. Við hefðum getað gert betur í seinni hálfleik en við vissum að þeir myndu setja pressu á okkur,“ sagði Van Dijk eftir leikinn.

Liverpool hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í átta leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og Van Dijk er að vonum ánægður með varnarleik liðsins.

„Við höldum áfram að leggja okkur fram. Við erum aldrei alveg ánægðir. Í tvígang þurftum við að treysta á Alisson sem er eitthvað sem við viljum reyna að forðast. Allir leggja sitt að mörkum til að við höldum hreinu,“ sagði Van Dijk.

„Það eru alltaf væntingar til mismunandi liða en okkur er sama hvað öðrum finnst um okkur. Við reynum að keppa, vinna og ná árangri.“

Í fyrsta leik sínum eftir landsleikjahléið, 20. október, tekur Liverpool á móti Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×