Í gær var greint frá því að samkynhneigðir karlar mættu gefa blóð hér á landi frá og með júlí á næsta ári, í kjölfar reglugerðarbreytingar heilbrigðisráðherra, sem kveður á um að allir blóðgjafar verði skimaðir fyrir lifrabólgu B og C, og HIV. Heilbrigðisráðherra sagði breytinguna mikið gleðiefni. Undir það tekur formaður Samtakanna '78.
„Enda hafa Samtökin barist fyrir því árum saman að fá þessum reglum breytt. Þessum reglum, sem eru augljós mismunun á grundvelli kynhneigðar. Á sama tíma þá er kannski tilfinningin sú að auðvitað hefði þetta átt að vera löngu komið, en loksins,“ segir Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna '78.
Ástæða þess að samkynhneigðir karlar hafa ekki mátt gefa blóð hér á landi er sú að þeir eru sagðir líklegri til að vera smitaðir af alnæmisveirunni HIV. Bjarndís fagnar því að allir blóðgjafar verði skimaðir.
„Og við erum bara glöð að búa í samfélagi sem er stöðugt að færast í rétta átt, til jafnræðis í samfélaginu.“
Fyrir breytinguna var Ísland eitt fjögurra Evrópuríkja sem enn lagði bann við blóðgjöfum samkynhneigðra karla, ásamt Tyrklandi, Kósovó og Króatíu. Flest Evrópuríki hafa síðustu ár leyft blóðgjafirnar eða sett skilyrði um að karlmenn megi ekki gefa blóð hafi þeir haft samfarir við annan karlmann innan ákveðins tíma.
„Auðvitað er þetta löngu tímabær breyting, við vitum það. En stundum taka þessir hlutir bara tíma og nú erum við komin á þennan stað. Þá viljum við mjög gjarnan horfa fram á veginn, frekar en að horfa til fortíðar,“ sagði Bjarndís Helga Tómasdóttir.