Haldnar verða minningarathafnir víða um landið í dag og eru lögregluyfirvöld í viðbragðsstöðu vegna ótta um að framdar verði hryðjuverkaárásir í dag. Hamas gerði eldflaugaárásir í átt að landamærastöðunum Rafah, Kerem Shalom og bænum Holit snemma í morgun. Fram kemur í yfirlýsingunni að árásinni hafi verið beint að óvinum, sem hafi verið að safnast þar saman samkvæmt fréttaflutningi Guardian.
Síðasta árið hafa minnst 41.870 Palestínumenn verið drepnir á Gasaströndinni samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti strandarinnar og 97.166 særst. Þúsunda er saknað í húsarústum.
Ísrael heldur áfram hernaði bæði á Gasaströndinni og í Líbanon. Herinn hefur fyrirskipað fjölda íbúa í suðurhluta Líbanon að yfirgefa heimili sín og stefna í átt að norðurhluta Awali-árinnar. Gerðar voru árásir á Beirút, höfuðborg Líbanon í nótt.
Þá gerði hann fyrstu loftárásirnar á borgina Trípólí í norðurhluta landsins á laugardag. Ísrael hefur eins hótað árásum á Íran, til að hefna fyrir loftárásir þess í síðustu viku.
Herinn hefur þá skipað þeim íbúum norðurhluta Gasastarndarinnar, sem enn halda þar til, að yfirgefa svæðið. Talið er að um 300 þúsund haldi þar til nú.