Erlent

Segja her­menn Kim lík­lega á leið til liðs við Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, þegar sá fyrrnefndi heimsótti einræðisríkið í sumar. Þeir skrifuðu undir samkomulag sem ráðamenn í Suður-Kóreu segja marka hernaðarbandalag ríkjanna.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, þegar sá fyrrnefndi heimsótti einræðisríkið í sumar. Þeir skrifuðu undir samkomulag sem ráðamenn í Suður-Kóreu segja marka hernaðarbandalag ríkjanna. EPA/VLADIMIR SMIRNOV

Hermenn frá Norður-Kóreu verða líklega sendir til liðs við rússneska hermenn í Úkraínu. Sex hermenn frá einræðisríkinu einangraða eru þar að auki sagðir hafa fallið í eldflaugaárás í Úkraínu fyrr í mánuðinum.

Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu hélt þessu fram í dag en hernaðarlegt samstarf Rússlands og Norður-Kóreu hefur aukist til muna.

Kim Yong-hyun, áðurnefndur ráðherra, sagði þingmönnum í Suður-Kóreu í dag að þar sem Vladimír Pútín og Kim Jong Un, einræðisherrar Rússlands og Norður-Kóreu, hefðu skrifað undir hernaðarsamkomulagt væri verulega líklegt að Kim sendi hermenn til aðstoðar Rússa, samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar.

Sjá einnig: Kim lýsir yfir afdráttarlausum stuðningi við stríð Rússa í Úkraínu

Ráðherrann sagði einnig að fregnir af mannfalli meðal Kóreumanna í Úkraínu væru líklega réttar.

Kim Jong Un að skoða stórskotaliðshermenn í her sínum á dögunum.AP/KCNA

Kyiv Post sagði frá því í síðustu viku að sex yfirmenn úr her Norður-Kóreu hefðu fallið í eldflaugaárás Úkraínumanna í Dónetskhéraði þann 3. október. Þrír Kóreumenn til viðbótar voru sagðir hafa særst í árásinni en leyniþjónusta úkraínska hersins hélt því fram í fyrra að takmarkaður fjöldi hermanna frá Norður-Kóreu hefði verið sendur til hernumdra svæða í Úkraínu.

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa um nokkuð skeið sent umtalsvert magn af hergögnum, og þá sérstaklega sprengikúlum fyrir stórskotalið, til Rússlands. Rússar hafa einnig notað stýri- og skotflaugar frá Norður-Kóreu til árása í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×