„Alltaf súrt að tapa en mér fannst þetta ágætis leikur hjá okkur. Við börðumst allir allan tímann, það var mikið hjarta í þessari frammistöðu. Auðvitað súrt að tapa en við stóðum okkur ágætlega, það er líka hægt að taka það út úr þessu,“ sagði Jóhannes í viðtali sem var tekið af fjölmiðlafulltrúa FH eftir leik og má í heild sinni sjá í spilaranum neðst í fréttinni.
Hann var síðan spurður hver munurinn væri á því að mæta efsta liði frönsku úrvalsdeildarinnar, samanborið við liðin sem FH mætir í Olís deildinni heima fyrir.
„Ég myndi klárlega segja líkamlegi þátturinn, þeir eru sterkari og betri á löppunum. Miklu þyngri og stærri, ég myndi segja að það væri aðalmunurinn hvernig líkamlegir burðir eru.“
FH vantaði nokkra lykilmenn í kvöld, meðal annars fyrirliðann Aron Pálmarson, en liðið stóð samt lengi í heimamönnum.
„Klárlega. Við missum þá aðeins í lokin en eigum fullt í þessa gæja. Það verður mjög gott að fá þá í Krikann, það verður alltaf alvöru leikur,“ sagði Jóhannes að lokum spenntur fyrir að bjóða Frökkunum heim.