Körfubolti

Flottur leikur Elvars í sigri í Evrópubikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir gríska liðið Maroussi í Evrópubikarnum í körfubolta þegar liðið mætti sænska liðinu Norrköping á heimavelli.

Elvar Már gekk til liðs við Maroussi í sumar eftir að hafa leikið með PAOK á síðasta tímabili. Liðið leikur í Europe Cup FIBA í vetur og er þar í riðli með sænska liðinu Norrköping, BC Sabah frá Aserbaíjan og Spirou frá Belgíu.

Leikurinn í kvöld fór fram á heimaveli Maroussi í Grikklandi en það voru gestirnir frá Svíþjóð sem byrjuðu betur og leiddu 19-13 eftir fyrsta leikhlutann. Heimamenn voru þó fljótir að ranka við sér og Elvar kom Maroussi í forystu í stöðunni 31-29 um miðjan annan leikhluta. Að honum loknum var staðan 44-43 Maroussi í vil og var Elvar kominn með fjögur stig.

Í þriðja leikhluta náðu heimamenn síðan frumkvæðinu. Þeir náðu mest níu stiga forskoti en gestirnir voru aldrei langt undan. Þeim tókst að minnka muninn í þrjú stig í upphafi fjórða leikhluta en þá skildu leiðir. Lið Maroussi stakk af og vann að lokum nokkuð þægilegan sigur. Lokatölur 99-80.

Elvar Friðriksson átti virkilega góðan leik fyrir heimamenn í kvöld. Hann skoraði 13 stig og gaf 13 stoðsendingar auk þess sem hann stal fjórum boltum og tók tvö fráköst.

Þetta voru fyrstu leikir liðanna í riðlinum en næst mætir Maroussi liði Sabah á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×