Erlent

Hóta frekari að­gerðum eftir um­fangs­miklar æfingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Taívanskir flugmenn á frönskum Mirage 2000 þotum yfir Taívan í morgun. 125 kínverskum herflugvélum var flogið að eyríkinu í mjög umfangsmiklum heræfingum Kínverja.
Taívanskir flugmenn á frönskum Mirage 2000 þotum yfir Taívan í morgun. 125 kínverskum herflugvélum var flogið að eyríkinu í mjög umfangsmiklum heræfingum Kínverja. EPA/RITCHIE B. TONGO

Kínverjar héldu í dag gífurlega umfangsmiklar heræfingar kringum Taívan. Æfingarnar voru haldnar í kjölfar þess að forseti eyríkisins hélt í síðustu viku ræðu þar sem hann ítrekaði fullveldi Taívans og sagði ráðamenn Í Peking ekki eiga tilkall til eyjunnar.

Flestir angar herafla Kína komu að æfingunum í dag. Herinn, sjóherinn, flugherinn og eldflaugadeild hersins komu að þeim og líktu æfingarnar í raun eftir því að gera herkví kringum Taívan. Metfjöldi herflugvéla var sendur að eyjunni eða alls 125 og níutíu þeirra var flogið inn á svokallað loftvarnarsvæði Taívan.

Sautján herskipum og sautján skipum strandgæslu Kína var einnig siglt kringum Taívan og var flugmóðurskipið Liaoning eitt þeirra, samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Skipum strandgæslu Kína var siglt hringinn kringum Taívan og lýstu forsvarsmenn stofnunarinnar því yfir að skipum hafi verið siglt í eftirlitsferðum. Engar fregnir hafa þó borist af því að Kínverjar hafi reynt að fara um borð í skip frá Taívan eða annarsstaðar, eins og um landhelgi Kína væri að ræða.

Hóta frekari aðgerðum

Li Xi, talsmaður herafla Kína í austri, lýsti því svo yfir þegar æfingunum var lokið að um „viðvörun“ væri að ræða gagnvart þeim öflum sem tala um sjálfstæði Taívan. Lýsti hann æfingunum sem „lögmætri og nauðsynlegri“ og sagði markmiðið að tryggja fullveldi Kína.

Þá segir í frétt Reuters að eftir að æfingunum lauk hafi varnarmálaráðuneyti gefið út harðorða yfirlýsingu þar sem frekari æfingar og aðgerðir voru boðaðar.

Kínverski herinn myndi ganga lengra í hvert sinn sem taívanskir sjálfstæðissinar ögruðu Kína eins og Lai Ching Te, forseti hefði gert í síðustu viku, þar til „Taívan-málið“ yrði leyst.

Lai Ching Te var kjörinn forseti Taívan í janúar en hann er stuðningsmaður sjálfstæðs Taívan. Síðasta fimmtudag hélt hann ræðu á þjóðhátíðardegi Taívan og lýsti hann því yfir að ráðamenn í Kína hefðu ekki rétt á að ráðskast með Taívan. Einungis taívanska þjóðin hefði rétt til að ákveða hennar eigin framtíð.

Segjast eiga Taívan

Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Í stjórnarskrá Taívans má einnig finna ákvæði um að Taívanir séu réttmætir stjórnendur mestalls Kína.

Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi Jinping, forseti Kína. Hann er sagður hafa gert það að markmiði sínu að ná völdum á Taívan og hefur hann sagt að það verk megi ekki enda á höndum komandi kynslóða.

Kínverjar hafa á undanförnum árum sífellt aukið þrýstinginn á Taívan með reglulegum flugferðum herþota í átt að og í kringum eyjuna, svo eitthvað sé nefnt.

Sjá einnig: „Sjálfstæði Taívans þýðir stríð“

Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.

Undanfarin ár hafa Kínverjar beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi með því markmiði að grafa undan vörnum ríkisins. Herafli Kína hefur sömuleiðis gengist mikla nútímavæðingu og uppbyggingu en Xi er sagður hafa skipað forsvarsmönnum hersins að vera tilbúnir fyrir mögulega innrás í Taívan árið 2027. Það ár mun marka aldarafmæli kínverska hersins.


Tengdar fréttir

Nýjasti kafbátur Kínverja sökk við bryggju

Nýjasti kjarnorkuknúni kafbátur Kína sökk við bryggju í vor. Um er að ræða nýja gerð kafbáta og er þetta fyrsti báturinn af þeirri gerð. Hann sökk við skipasmíðastöð nærri Wuhan í Kína. Ráðamenn í Kína hafa lagt mikla áherslu á uppbyggingu kínverska kafbátaflotans og var reynt að hylma yfir atvikið.

Skutu skotflaug í Kyrrhafið í fyrsta sinn í rúm fjörutíu ár

Kínverjar framkvæmdu í morgun tilraun með langdræga skotflaug sem borið getur kjarnorkuvopn. Eldflaugin bar gervi-sprengiodd og var henni skotið í Kyrrahafi en þetta er í fyrsta sinn í nokkra áratugi sem Kínverjar gera tilraun sem þessa.

Kínverjar æfa innrás á Taívan

Kínverjar iðka nú tveggja daga langa heræfingu í kringum Taívan og segja þeir æfinguna vera refsingu gagnvart eyjaskeggjum sem þeir saka um aðskilnaðarstefnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×