Fótbolti

Dómarinn í Laugar­dalnum fór ekki eftir vinnu­reglum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sylwestrzak er ekki vinsæll á meðal Íslendinga sem stendur.
Sylwestrzak er ekki vinsæll á meðal Íslendinga sem stendur. Anton Brink/Anadolu via Getty Images

Starfsreglur UEFA-dómara er varða endurskoðun á VAR segja til um að dómari á velli skuli horfa á myndbönd af atviki áður en hann taki ákvörðun. Ekki dugi að sjá stillimynd. Dómari leiks Íslands og Tyrklands í Þjóðadeild UEFA í gær virðist ekki hafa farið eftir þeim reglum þegar hann dæmdi Tyrkjum tvær vítaspyrnur.

Dómar gærkvöldsins hafa sætt töluverðri gagnrýni sökum þess hve snöggur Damian Sylwestrzak, pólskur dómari leiksins, var að taka ákvörðun. Tyrkland fékk tvær vítaspyrnur í leiknum, þá fyrri á 54. mínútu og þá síðari á 67. mínútu.

Í útsendingu Stöðvar 2 Sports frá leiknum í gær sést að Sylwestrzak sá aðeins stillimynd af síðara atvikinu áður en hann benti á vítapunktinn. Hann var einnig snöggur að ákveða þá fyrri, en ekki sést eins skýrlega í útsendingu hvað Sylwestrzak fékk að sjá á skjánum í það skiptið.

Klippa: Laugardalsvöllur bjargar Íslandi

Samkvæmt upplýsingum Vísis fer það þvert gegn þeim vinnureglum sem dómarar eigi að tileinka sér þegar kemur að VAR-dómum. Í þeim reglum komi skýrt fram að dómarar skuli sjá myndskeið af atvikinu sem umræðir á að minnsta kosti 75 prósent hraða áður en ákvörðun er tekin. Þó stillimyndir og hæg endursýning séu einnig leyfðar.

Klippa: Umræða um vítið sem var dæmt og vítið sem var ekki dæmt

Tyrkland fékk tvær vítaspyrnur í leik gærkvöldsins, báðar sökum þess að íslenskur leikmaður handlék boltann innan teigs. Hakan Calhanoglu skoraði úr báðum en markið úr þeirri fyrri var dæmt af þar sem hann rann til og skaut í stoðfót sinn.

Ísland vildi víti í leiknum þegar Merih Demiral virtist handleika boltann á marklínu eftir skot Orra Steins Óskarssonar. Þegar kom að því atviki var Sylwestrzak ekki sendur í skjáinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×