Enski boltinn

„Ævin­týri og lygar í boði sumra ykkar“

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag er áfram knattspyrnustjóri Manchester United, þvert á það sem margir virtust halda fyrir landsleikjahléið.
Erik ten Hag er áfram knattspyrnustjóri Manchester United, þvert á það sem margir virtust halda fyrir landsleikjahléið. Getty/Ash Donelon

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, sakar fjölmiðlamenn um að spinna lygar um framtíð hans í starfi. Allir hjá United séu á sömu blaðsíðu.

Mikil pressa virtist á Ten Hag eftir 3-0 tapið gegn Tottenham í síðasta leik fyrir landsleikjahléið sem nú er að ljúka.

United er aðeins í 14. sæti og ýmsir töldu að dagar hollenska stjórans væru taldir, ekki síst þegar fulltrúar bandarísku Glazer-fjölskyldunnar funduðu með meðeiganda sínum, Sir Jim Ratcliffe, og öðrum stjórnendum félagsins í London í síðustu viku.

Niðurstaðan af þeim fundi var þó ekki sú að reka Ten Hag, sem stýrði United til bikarmeistaratitils í vor og deildabikarmeistaratitils árið áður.

United mætir því Brentford á morgun með Ten Hag í brúnni og freistar þess að ná í sigur eftir fimm leiki í röð án sigurs í öllum keppnum.

„Líklega trúðu þeir mér ekki“

Ten Hag segir fjölmiðlamenn vísvitandi hafa hunsað ummæli hans eftir markalaust jafntefli við Aston Villa 6. október, þegar hann sagði sig og eigendur United á sömu blaðsíðu.

„Einu lætin eru þessi ævintýri og lygar í boði sumra ykkar,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í dag.

„Ég veit að við erum allir á sömu blaðsíðu hjá þessu félagi. Ég sagði þetta fyrir hléið. Ég sagði nokkrum fjölmiðlamönnum þetta. Líklega trúðu þeir mér ekki því ég sá hvernig fréttirnar voru svo. En innanbúðar er allt rólegt,“ sagði Ten Hag.

Ef United vinnur ekki Brentford mun liðið hafa spilað sex leiki í röð í öllum keppnum án sigurs. Það yrði í fyrsta sinn í fimm ár. Brentford hefur hins vegar ekki fagnað sigri á Old Trafford síðan árið 1937, en var ansi nálægt því á síðustu leiktíð áður en Scott McTominay skoraði í tvígang í lokin.

„Við erum auðvitað óánægðir með þá stöðu sem við erum í. Taflan lýgur ekki og þetta er ekki nógu gott. En við erum rólegir og yfirvegaðir. Við höldum okkur við planið og erum vissir um að uppskera,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×