„Við viljum tryggja að allir kjósendur í sveifluríkjum viti af þessu og mig grunar að þetta muni tryggja það,“ sagði Musk á samfélagsmiðli sínum, X.
Til þess að geta unnið milljón dali þurfa umræddir kjósendur þó að hafa skrifað undir undirskriftalista pólitískrar aðgerðanefndar (e. PAC) sem Musk hefur stofnað til stuðnings Donalds Trump. Undirskriftalistinn snýr að því að lýsa yfir stuðningi við ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna um málfrelsi og skotvopnaeign.
Á vef aðgerðanefndarinnar segir að kjósendur í Pennsylvaníu, Georgíu, Nevada, Arizona, Michigan, Wisconsin og Norður-Karólínu eigi rétt á því að taka þátt. Þetta eru þau sjö ríki sem talið er að muni ráða úrslitum í forsetakosningunum þann 5. nóvember.
Sjá einnig: Sér ekki á svörtu hjá „hinum útvalda“
Kjósendur sem skrifa undir eiga einnig rétt á 47 dölum í verðlaun fyrir hvern nýjan kjósenda sem þau fá til að skrifa einnig undir. Í Pennsylvaníu, sem þykir sérstaklega mikilvægt ríki í þessum kosningum, eiga rétt á hundrað dölum í stað 47.
Musk gaf fyrstu milljón dala ávísunina á laugardaginn og aðra í gær.
Sjá einnig: Bar fram samsæriskenningar á fyrsta kosningafundinum
Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu og fyrrverandi ríkissaksóknari, sagði í viðtali í gær að hann hefði áhyggjur af þessu útspili Musks, sem þegar hefur varið að minnsta kosti tíu milljörðum króna til stuðnings Trumps.
Shapiro, sem er Demókrati, sagði Musk hafa rétt á skoðunum sínum en óljóst væri hvort þetta væri löglegt og það þyrfti að rannsaka málið. Hann neitaði að segja berum orðum hvort hann teldi útspil Musks ólöglegt.
WATCH: Every day until Election Day, Elon Musk says he’ll give $1M to a voter who has signed his super PAC’s petition “in favor of free speech and the right to bear arms.”@JoshShapiroPA: “That is deeply concerning. ... It's something that law enforcement could take a look at." pic.twitter.com/2mZY1b5YaL
— Meet the Press (@MeetThePress) October 20, 2024
Fleiri hafa lýst yfir efasemdum um að happdrætti Musks sé löglegt. Einn sérfræðingur í lögum um kosningum sem Washington Post ræddi við sagði ólöglegt að gefa fólki peninga fyrir atkvæði eða fyrir það að þau skráðu sig sem kjósendur.
Fleiri hafa tekið undir það að um ólöglegt athæfi sé að ræða.
Annar sérfræðingur sagði í samtali við AP fréttaveituna að það að skilgreina þátttöku við skráða kjósendur væri líklega brot á lögum. Það væri ekki beint verið að greiða fólki peninga fyrir að kjósa en þetta færri ansi nærri því.