Enski boltinn

Van Dijk byrjaður í við­ræðum

Sindri Sverrisson skrifar
Virgil van Dijk kveðst enn mjög ferskur og hann er byrjaður að ræða um nýjan samning.
Virgil van Dijk kveðst enn mjög ferskur og hann er byrjaður að ræða um nýjan samning. Getty/Carl Recine

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segist vera byrjaður að ræða við stjórnendur félagsins um nýjan samning.

Van Dijk, sem er 33 ára gamall Hollendingur, kom til Liverpool í janúar 2018 en núgildandi samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.

„Viðræður eru í gangi og við sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Van Dijk samkvæmt BBC.

„Ég hef ekki hugmynd um það núna hvað gerist í framtíðinni. Það eina sem ég get fullyrt er að viðræður eru hafnar og við sjáum hvað setur,“ sagði Van Dijk.

Fleiri lykilmenn úr liði Liverpool eru að renna út á samningi því Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah eru einnig með samninga við félagið sem gilda til næsta sumars. Ekkert hefur enn verið gefið uppi varðandi þeirra stöðu.

Liverpool keypti Van Dijk frá Southampton fyrir 75 milljónir punda og hann hefur átt ríkan þátt í velgengni liðsins á síðustu árum, sem meðal annars hefur skilað Englandsmeistaratitli, Evrópumeistaratitli, bikarmeistaratitli, deildabikarmeistaratitli og heimsmeistaratitli.

Landi hans, Arne Slot, tók við Liverpool í sumar og hefur Liverpool farið afar vel af stað í hans stjórnartíð en liðið er efst í ensku úrvalsdeildinni með sjö sigra úr átta fyrstu leikjunum.

„Mér líður vel, líkamlega og andlega, og skemmti mér vel,“ sagði Van Dijk eftir 2-1 sigurinn gegn Chelsea í gær.

„Þegar kemur að því að taka ákvörðun þá fáið þið [fjölmiðlamenn] að vita af því líka,“ sagði Hollendingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×