Atvikið átti sér stað 31. ágúst síðastliðinn. Sautján ára strákur reyndi þá að ræna Pearsall úti á götu í Union Square. Þeir tókust á, skot hljóp úr byssu stráksins og .eir urðu báðir fyrir því. Kúlan fór í bringu Pearsall og út um bakið á honum.
Pearsall slapp ótrúlega vel eftir skotárásina en engin líffæri sködduðust. Hann var útskrifaður af spítala degi eftir árásina og var mættur í lyftingasalinn tveimur dögum síðar.
Eðlilega varð þó bið á því að Pearsall þreytti frumraun sína með San Francisco 49ers en stundin rann loks upp á sunnudaginn þegar Niners mætti meisturum Kansas City Chiefs.
Niners töpuðu leiknum, 28-18, en Pearsall var sáttur eftir leikinn, þann fyrsta á ferlinum í NFL.
„Þetta skipti öllu máli,“ sagði Pearsall sem Niners valdi í fyrstu umferð nýliðavalsins.
„Í ljósi alls þess sem ég hef gengið í gegnum síðustu mánuði var gott að spila aftur með strákunum. Strax eftir árásina hugsaði ég til strákanna, þjálfaranna og alls starfsliðsins. Allir studdu við bakið á mér og fyrir það er ég þakklátur.“
Eftir leikinn sagðist Pearsall vera fullur af orku og leið eins og hann gæti spilað annan leik strax aftur.