Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg og gaf fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og lagði upp fjögur.
Þremur mörkum munaði á liðunum í hálfleik en eftir hlé skipti Magdeburg um gír og stakk Stuttgart af. Á endanum munaði ellefu mörkum á liðunum, 25-36.
Ómar var markahæstur í liði Magdeburg. Danski línumaðurinn Magnus Saugstrup kom næstur með sex mörk. Philipp Weber og Lukas Mertens skoruðu sitt hvor fimm mörkin.
Þetta var fjórði sigur Magdeburg í röð en liðið er í 3. sæti deildarinnar með tólf stig, tveimur stigum á eftir toppliði Melsungen en á leik til góða.