Þann 2. október varð truflun á í flutningsneti Landsnets í kjölfar útleysingar hjá Norðuráli með þeim afleiðingum að víða var rafmagnslaust í nokkra klukkutíma.
Í tilkynningunni segir að RARIK muni greiða viðskiptavinum sínum bætur fyrir ónýt tæki og vegna tækja sem hafa bilað en hægt er að gera við. RARIK mun ekki bæta afleitt tjón sem er til dæmis tími fólks, óþægindi, ferðir á milli staða eða annað slíkt.
Um miðjan mánuð var greint frá því að um 200 tilkynningar hefðu borist RARIK um tjón og að þau ættu von á fleirum.
Í tilkynningu RARIK harma þau að einhverjir viðskiptavinir hafi fengið tilkynningu frá Sjóvá um að álitamál væri hvort tjón af völdum rafmagnstruflananna væri álitamál.
„Orðalag póstsins var villandi og ekki til þess fallið að vekja traust hjá viðskiptavinum okkar. Mögulega gætu einhverjir viðskiptavinir þurft að miðla upplýsingum um tjón í tvígang af þessum sökum, á því biðjumst við velvirðingar en forgangsverkefni okkar er að greiða úr tjónamálunum fyrir viðskiptavini,“ segir einnig.
TM hafi samband
Þá segir að TM búi yfir sérfræðiþekkingu um bótamál og því taki þau yfir alla umsýslu mála. TM muni hafa samband við viðskiptavini sem hafi tilkynnt tjón innan skamms vegna afgreiðslu málsins og óska eftir frekari upplýsingum um tjónið ef þörf er á.
„RARIK og TM munu kappkosta að koma í veg fyrir frekari tafir á afgreiðslu mála. Breytingarnar eru gerðar með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi og vilja RARIK og TM gera sitt besta til að tryggja farsæla lausn á öllum málum.“
Tilkynningin er hér en þar er nánar farið yfir hvað er bætt og hvað ekki. Viðskiptavinum er þar bent á að taka myndir af ónýtum tækjum og öðru tjóni. Þá er viðskiptavinum bent á að öllum mælum sem skemmdust þurfi að skipta út fyrr en síðar.