Birkir, sem er 36 ára gamall, lék með Sampdoria fyrir um áratug síðan og var því mættur á sinn gamla heimavöll í dag.
Þar leið honum greinilega vel því hann skoraði sigurmark Brescia, á 69. mínútu, eða aðeins tveimur mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Þetta var annað mark Birkis í deildinni í haust en hann skoraði fimm mörk í deildinni á síðustu leiktíð.
Birkir er leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi en hefur ekki spilað landsleik í tæplega tvö ár. Hann á að baki 113 A-landsleiki og hefur skorað í þeim fimmtán mörk.
Með sigrinum í dag er Brescia með 17 stig og komið upp fyrir Sampdoria, í 7. sæti ítölsku B-deildarinnar. Liðið er einu stigi frá 4. sæti en tíu stigum á eftir toppliði Pisa.