Eins og fram hefur komið þá varð Eygló Evrópumeistari í -71 kg flokki, í hópi 23 ára og yngri, auk þess sem hún sló Norðurlandametið í fullorðinsflokki með samanlögðum árangri sínum.
Hún lyfti 104 kg eða mest allra í snörun og einnig mest allra í jafnhendingu eða 133 kg. Samtals lyfti hún því 237 kg og vann öruggan sigur en sigurlyftu hennar í jafnhendingunni má sjá hér að neðan.
Í dag fékk Eygló svo viðurkenningu fyrir að hafa orðið stigahæst allra kvenna, þvert á flokka, á mótinu. Útkoman gat því ekki orðið betri, á þessu síðasta U23-móti Eyglóar sem var með foreldra sína á meðal áhorfenda auk þess sem móðir hennar fékk svo þann heiður að veita henni gullverðlaunin.
Eygló var einnig stigahæst á Norðurlandamótinu í Færeyjum fyrir tveimur vikum og það var þá í fyrsta sinn sem að Íslendingur hlýtur þá viðurkenningu.
Íslendingar uppskáru ríkulega á mótinu í Póllandi því auk verðlauna Eyglóar fékk Guðný Björk Stefánsdóttir þrenn bronsverðlaun í sama þyngdarflokki og hún.
Í dag hlaut svo Erla Ágústsdóttir þrenn bronsverðlaun í +87 kg flokki. Erla lyfti mest 97 kg í snörun og 116 kg í jafnhendingu, eða samtals 213 kg.

Erla fékk allar sex lyftur sínar gildar á mótinu en það var þó ekki útlit fyrir það í fyrstu því dómararnir gáfu henni þrjú rauð ljós á opnunarlyftuna í jafnhendingu. Þessu mótmæltu þjálfarar Erlu og eftir endurskoðun var dómnum snúið og lyftan dæmd gild.