CIES, rannsóknarhópur sem tekur saman ýmsa tölfræði og aðra hluti tengda fótbolta, skipaði hundrað manna listann.
Orri var í upphafi sumars metinn á 15,2 milljónir evra af CIES. Hann var síðan keyptur af Real Sociedad frá FC Kaupmannahöfn í sumar á tuttugu milljónir evra.
Eftir góða spilamennsku undanfarið er virði hans nú talið vera 36 milljónir evra. Það er rúmlega tuttugu milljóna stökk, að mati CIES, á aðeins hálfu ári.
Orri hefur skorað tvö mörk í átta leikjum í spænsku úrvalsdeildinni en hann hefur aðeins spilað að meðaltali 36 mínútur í leik. Það gerir eitt mark á hverjum 146 mínútum. Þar að auki potaði hann inn fyrsta Evrópudeildarmarkinu í gær, í þriðja leiknum.
Hann skoraði einnig stórglæsilegt mark fyrir Ísland þegar hann brunaði upp hálfan völlinn og þrumaði í netið gegn Tyrklandi fyrir tæpum mánuði. Annað landsliðsmark hans á árinu eftir að hafa stangað boltann inn gegn Svartfjallalandi í september.
Sjötti verðmætasti framherjinn
Af framherjum er Endrick, Brassinn hjá Real Madrid, langverðmætastur en hann er metinn á 98 milljónir evra.
Jhon Durán (70 milljónir) og Evan Ferguson (61 milljón) fylgja eftir í öðru og þriðja sæti. Svo má finna Samu Omorodion (51 milljón) og Vitor Roque (43 milljónir) áður en komið er að Orra.
Á eftir honum eru svo George Ilenikhena, Youssoufa Moukoko og Santiago Castro sem eru allir metnir á rétt rúmar 35 milljónir.

Fjórir metnir á meira en hundrað milljónir
Fjórir leikmenn eru metnir á meira en hundrað milljónir evra. Það ætti ekki að koma mörgum á óvart að Lamine Yamal sé í efsta sæti.
Hann er metinn á rúmar 180 milljónir evra en Alejandro Garnacho (115 milljónir), Warren Zaire-Emery (109 milljónir) og Sávio (101 milljón) fylgja honum eftir.
