Milljónirnar 650 sem eiga að fara í bráðamóttökuna samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar um breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs kæmu af heimildum Nýja Landspítalans. Brýnt er sagt að ráðast í húsnæðislausnir fyrir bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem núverandi aðstaða geri spítalanum ekki kleift að sinna nauðsynlegri bráðaþjónustu fram að opnun nýs meðferðarkjarna.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala (NLSH, opinbers hlutafélags um framkvæmdina, segir að fjölga eigi legurýmum á bráðamóttökunni. Göngudeild verði færð í færanlega byggingu.
Hann segir tillögu um að draga tvo og hálfan milljarð af áður áætluðum fjárveitingum til framkvæmda við Nýja Landspítalann á næsta ári engin áhrif hafa á framgang uppbyggingarinnar miðað við þær framkvæmdaáætlanir sem liggi fyrir. Áfram verði framkvæmt fyrir meira en tuttugu milljarða króna á næsta ári.

Ljóst hefði verið að NLSH þyrfti ekki alla fjármunina á næsta ári vegna hliðrunar á framkvæmdalínu og þá ætti félagið uppsafnaðar fjárheimildir frá fyrri árum. Þeir milljarðar sem lagt er til að verði teknir af fjárheimildum næsta árs færist til ársins 2026.
Auk fimm þingmanna starfsstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks skrifar Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, undir nefndarálit meirihlutans en með fyrirvara um að ekki liggi fyrir heildaráhrif af breytingunum sem lagðar eru til.