Sport

Sögu­leg frammi­staða Júlíu og Manuels skilaði þeim á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza byrjuðu að skauta saman fyrr á þessu ári og eru strax farin að ná frábærum árangri.
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza byrjuðu að skauta saman fyrr á þessu ári og eru strax farin að ná frábærum árangri. JPHOTOS

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Ítalinn Manuel Piazza verða fyrsta parið í sögunni til að keppa fyrir Íslands hönd á sjálfu Evrópumeistaramótinu á listskautum, eftir að hafa unnið bronsverðlaun á móti í Dortmund um helgina.

Júlía er 19 ára gömul og hefur keppt fyrir hönd Íslands allan sinn feril en hingað til í einstaklingskeppni. Þar hefur hún góðum árangri og varð fyrr á þessu ári fyrst Íslendinga til að vinna gullverðlaun á alþjóðlegu móti í fullorðinsflokki, þegar hún vann Reykjavíkurleikana.

Þau Júlía og Manuel, sem er 24 ára og frá Ortiesei á Norður-Ítalíu, urðu um helgina fyrsta parið til að keppa fyrir Íslands hönd á listskautum. Frumraunin tókst listavel því þau unnu bronsverðlaun á NRW Trophy og náðu nógu góðum árangri til að tryggja sig inn á EM í Eistlandi, sem fram fer 28. janúar til 2. febrúar á næsta ári. Eins og gefur að skilja eru þetta fyrstu verðlaun Íslendings í paraskautun.

Parið vissi að það þyrfti 75.00 tæknistig samanlagt, í stutta og frjálsa prógramminu á mótinu í Þýskalandi, til að komast á EM.

Á laugardaginn fengu þau 26,41 í tæknieinkunn, og í heildina 47,04 stig, fyrir stutta prógrammið. Þau fylgdu því svo eftir í gær með því að fá 49,40 stig í tæknieinkunn og samtals 93,46 stig fyrir frjálsa prógrammið sitt.

Það gerir samtals 75,81 stig í tæknieinkunn og 140,50 heildarstig, og farseðlarnir á EM þar með klárir.

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir er að fara að keppa á EM í lok janúar, með Ítalanum Manuel Piazza. Þau keppa fyrir Íslands hönd.JPHOTOS

Parið æfir í Bergamo á Ítalíu í Afreksmiðstöð ISU, undir handleiðslu Rosanna Murante og Ondrej Hotarek. Þau æfa að hluta til á Íslandi undir stjórn Benjamin Naggiar, yfirþjálfara Fjölnis, en hann hefur verið þjálfari Júlíu Sylvíu síðan 2021. Benjamin Naggiar er kóreógraferinn í teyminu og hefur samið bæði keppnisprógömm parsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×