Fótbolti

Ekki út­lit fyrir breytingar á hópnum fyrir stór­leikinn gegn Wa­les

Aron Guðmundsson skrifar
Strákarnir stilla sér upp fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi
Strákarnir stilla sér upp fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi Vísir/Getty

Ekki er búist við því að nýr leikmaður bætist við leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í fótbolta fyrir komandi leik liðsins gegn Wales í Þjóðadeild UEFA í Cardiff á morgun.

Þetta herma upplýsingar Vísis úr herbúðum KSÍ en Logi Tómasson mun taka út leikbann í leiknum og þá er ekki útséð með þátttöku Arons Einars Gunnarssonar í leiknum en hann fór meiddur af velli snemma í fyrri hálfleik gegn Svartfellingum á dögunum og verður að teljast afar ólíklegt að hann komi við sögu gegn Wales.

Jóhann Berg Guðmundsson mun bera fyrirliðabandið í mikilvæga leik morgundagsins og situr hann blaðamannafund með Age Hareide á Cardiff City leikvanginum seinna í dag. 

Ísland þarf sigur til þess að lyfta sér upp fyrir Wales í riðli liðanna í B-deildinni og þar með tryggja sér umsspilssæti fyrir A-deild Þjóðadeildarinnar. 

Wales nægir jafntefli til að tryggja annað sætið en gæti með sigri, sem og hagstæðum úrslitum í leik Svartfjallalands og Tyrklands, tryggt sér toppsæti riðilsins og þar með beint sæti í A-deild á næsta tímabili Þjóðadeildarinnar. 

Leikur Wales og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu og verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport annað kvöld. Leikurinn hefs klukkan korter í átta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×