Fótbolti

Messi jafnaði heims­met með frá­bærum hætti

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi hefur nú lagt upp 58 mörk fyrir argentínska landsliðið, til viðbótar við að skora sjálfur 112 mörk.
Lionel Messi hefur nú lagt upp 58 mörk fyrir argentínska landsliðið, til viðbótar við að skora sjálfur 112 mörk. Getty/Marcelo Endelli

Lionel Messi átti stóran þátt í 1-0 sigri Argentínu gegn Perú í nótt og jafnaði um leið heimsmetið yfir flestar stoðsendingar fyrir landslið karla í fótbolta.

Liðin áttust við í undankeppni HM og það var ekki fyrr en í seinni hálfleik sem Argentínu tókst að brjóta ísinn þegar Messi sýndi afar lipra takta og sendi fyrir markið á Lautaro Martínez sem skoraði frábært mark.

Hinn 37 ára gamli Messi hefur nú átt 58 stoðsendingar á sínum ferli með argentínska landsliðinu og er búinn að jafna met Bandaríkjamannsins Landon Donovan.

Það verður bið á því að Messi geti slegið metið og átt það einn en leikurinn í nótt var hans síðasti á þessu almanaksári, hvort sem er fyrir Argentínu eða Inter Miami. Næstu landsleikir hans gætu orðið gegn Úrúgvæ og Brasilíu 19. og 24. mars.

Martínez er nú jafn sjálfum Diego Maradona í 5. sæti yfir markahæstu landsliðsmenn Argentínu frá upphafi, með einu marki meira en Gonzalo Higuaín. Messi er langefstur á listanum með 112 mörk.

Eftir sigurinn í nótt er Argentína með fimm stiga forskot á toppnum í tíu liða undankeppni Suður-Ameríku, með 25 stig eftir 12 leiki. Úrúgvæ kemur næst með 20 stig, eftir 1-1 jafntefli við Brasilíu sem er með 18 stig í 5. sæti. Ekvador og Kólumbía eru með 19 stig hvort.

Federico Valverde kom Úrúgvæ yfir gegn Brasilíu í nótt, á 55. mínútu en Gerson, leikmaður Flamengo í Brasilíu, jafnaði skömmu síðar.

Kólumbía tapaði 1-0 á heimavelli gegn Ekvador, Bólivía og Paragvæ gerðu 2-2 jafntefli, og Síle vann Venesúela 4-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×