Vieira, sem er 48 ára gamall, hefur verið ráðinn þjálfari Genoa og gildir samningur hans til sumarsins 2026, með möguleika á árs framlengingu.
Hann tekur við Genoa í 17. sæti ítölsku A-deildarinnar, en með Albert sem sinn besta og langmarkahæsta mann endaði liðið í 11. sæti á síðustu leiktíð.
Vieira tekur við af Alberto Gilardino sem hafði stýrt Genoa frá því í desember 2022.
Vieira getur þar með endurnýjað kynnin við ítalska framherjann Mario Balotelli en þeir voru liðsfélagar hjá Manchester City og Inter, og Vieira stýrði svo Balotelli hjá franska liðinu Nice tímabilið 2018-19. Balotelli sagði að ósætti við Vieira um leikskipulag hefði leitt til þess að hann yfirgaf Nice.
Vieira starfaði síðast hjá franska félaginu Strasbourg en hætti þar í júlí. Áður stýrði hann Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni 2021-23, eftir að hafa stýrt Nice, New York City FC og varaliði Manchester City.