„Honum líður betur núna. Hann gat ekki komið út á gólf í seinni hálfleik því hann var með svo mikinn hausverk. En honum líður betur núna, hann mun ferðast með liðinu á morgun og verður vonandi klár í næsta leik,“ sagði aðstoðarþjálfarinn Edoardo Casalone, sem tók hans stað á blaðamannafundinum eftir leik.

„Mér fannst við spila fínan leik. Það er ekki auðvelt að koma hingað til Íslands og sækja sigur. Ísland er gott lið sem hefur spilað lengi saman, þannig að þetta var ekki auðvelt fyrir okkur en leikmenn mættu vel stemmdir í leikinn. Eins og þeir eiga að vera, og þeir sýndu alvöru frammistöðu með hörku á báðum endum vallarins. Við áttum sigurinn skilið, héldum alltaf striki þó Ísland hafi náð góðu áhlaupi í þriðja leikhluta.
Við misstum forystuna aðeins frá okkur, vorum að klikka á einföldum skotum og missa boltann frá okkur. En við héldum skipulagi og vorum þéttir, vissum að við myndum byrja að hitta boltanum aftur. Þannig að ég vil bara þakka leikmönnum og þjálfurum fyrir vel heppnaðan leik,“ sagði Edoardo um leikinn.
Ísland spilar aftur gegn Ítalíu á mánudag. Leikurinn fer fram úti á Ítalíu og verður í beinni textalýsingu á Vísi.