Körfubolti

Nær fimm­tán árum og ætlar með Ís­land á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Craig Pedersen hefur farið með Ísland á EM þrisvar sinnum, nú síðast í haust.
Craig Pedersen hefur farið með Ísland á EM þrisvar sinnum, nú síðast í haust. vísir/Hulda Margrét

Enginn hefur þjálfað íslenskt körfuboltalandslið eins lengi og Kanadamaðurinn Craig Pedersen sem eftir að hafa stýrt karlalandsliðinu í ellefu ár hefur nú skrifað undir samning sem gildir til ársins 2029. Hann segist enn eiga verki ólokið.

Craig tók við íslenska landsliðinu árið 2014 og hefur komið því á þrjú stórmót; EM 2015, 2017 og 2025.

Nú er ljóst að hann mun áfram stýra Íslandi í gegnum undankeppnir HM 2027 og EM 2029 en Craig ræddi um þetta við Stefán Árna Pálsson í Sportpakkanum á Sýn eins og sjá má hér að neðan.

„Stundum hefur mér dottið það í hug að sambandið vilji reyna eitthvað nýtt, þótt við höfum náð góðum árangri á mörgum sviðum, en það eru nokkur markmið sem ég hef fyrir liðið sem ég held að við getum náð,“ sagði Craig og var þá spurður út í þau markmið:

„Það sem liggur fyrir núna er að komast á HM. Ég held að við höfum sýnt stöðguleika gegn sterkum löndum undanfarin ár. Við erum í riðli þar sem það verða engir auðveldir leikir.“

Ísland er í riðli með Ítalíu, Litháen og Bretlandi í undankeppni HM en staða Breta er í algjörri óvissu eftir að FIBA setti breska sambandið í bann fyrr í þessum mánuði. Það var gert eftir að breska sambandið seldi bandaríska auðkýfingnum Marshall Glickman rétt til 15 ára á að starfrækja nýja deild í Bretlandi.

„Í augnablikinu er það í lausu lofti hvort að Bretar verða með í keppninni. Ég hef lesið að þeir muni ekki spila en ég hef líka heyrt að snemma í nóvember verði tekin lokaákvörðun og að ef þeir verði reknir úr keppninni komi annað lið í þeirra stað. En ég veit ekki hvaða lið það yrði,“ sagði Craig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×