Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og var mikill viðbúnaður vegna rútuslyssins skömmu fyrir 16 í dag.
Sjá einnig: Þyrlan kölluð út vegna rútuslyss
Að sögn Ásmundar Kristins Ásmundssonar, yfirlögregluþjóns á Vesturlandi, tók fjöldi lögreglumanna af bæði Snæfellsnesi og Borgarnesi þátt í aðgerðunum auk björgunarsveita og sjúkraflutningamanna. Þá er rannsóknardeild lögreglunnar á staðnum núna.
Ásmundur kvaðst ekki vita um ástand hinna slösuðu en sagði að slysið verði rannsakað eins og önnur umferðaslys og rannsókn sé þegar hafin. Þó sé ljóst að verður hafi verið leiðinlegt og vegurinn flugháll.
Einn veikur við Seljalandsfoss
Á sama tíma og þyrla Landhelgisgæslunnar sótti farþegana tvo á Snæfellsnes var önnur þyrla gæslunnar kölluð út á Suðurland.
„Það voru tvö útköll á sama tíma. Annars vegar þetta rútuslys þar sem tveir voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi. Á sama tíma var hin vaktin að sinna sjúkraflutningi vegna bráðra veikinda við Seljalandsfoss,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Flogið var með hinn veika á sjúkrahús og hann svo fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann. Ekki er hægt að segja til um ástand neins hinna þriggja. Þyrlurnar tvær lentu síðan á svipuðum tíma í Fossvog um hálf sex.