Í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu segir að á fundinum verði einnig farið yfir þá miklu og ítarlegu vinnu og aðgerðir sem unnar hafi verið í orkumálum á þessu kjörtímabili.
„Í janúar 2024 fól Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sérstökum starfshópi að skoða og gera tillögur um endurmat á lögum um rammaáætlun, til að tryggja skilvirka, ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. Í skýrslu starfshópsins, sem kynnt verður á eftir, eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum og reglum um rammaáætlun, sem miða að því að einfalda kerfið og auka skilvirkni. Leggur starfshópurinn m.a. til að farið verði í tímabundið átak í greiningu og forgangsröðun á landsvæðum með tilliti til verndar fyrir raforkuframleiðslu,“ segir í tilkynningunni.
Starfshóp um endurskoðun rammaáætlunar skipuðu þau Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, formaður, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra umhverfismála, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður.
Hægt er að fylgjast með í spilaranum að neðan.