Li Tie, sem er 47 ára gamall, spilaði með mönnum á borð við Wayne Rooney hjá Everton í byrjun þessarar aldar. Hann er stórt nafn í kínverskum fótbolta og þjálfaði kínverska landsliðið í tvö ár til loka ársins 2021.
Hann er jafnframt þekktastur þeirra sem sóttir hafa verið til saka eftir rannsókn á spillingu í kínverskum fótbolta.
Dómur yfir Li Tie féll í Wuhan í Kína í dag en samkvæmt ríkismiðlinum CCTV þáði hann næstum því 51 milljón jena, eða sem samsvarar næstum milljarði íslenskra króna, í mútur fyrir að velja ákveðna leikmenn í kínverska landsliðið eða hjálpa þeim að fá samninga hjá félagsliðum.

Ekki nóg með það heldur varði Li og félagið sem hann stýrði, Wuhan Zall, samtals þremur milljónum jena, eða um 57 milljónum króna, í mútur til þess að hann yrði landsliðsþjálfari.
Li var einnig sakaður um hagræðingu úrslita frá því þegar hann var þjálfari í kínversku deildinni á árunum 2015-2019.
Li og Sun Jihai úr Manchester City skráðu sig í sögubækurnar sem fyrstu kínversku leikmennirnir í ensku úrvalsdeildinni, árið 2002. Li lék 29 leiki á sinni fyrstu leiktíð með Everton og var einnig í kínverska landsliðinu sem spilaði á HM í fyrsta sinn árið 2002, í Suður-Kóreu og Japan.