Líkt og gegn Roma og svo oft á þessari leiktíð þá kom Sveindís inn á sem varamaður gegn Werder Bremen í dag. Staðan var þá 2-1 Wolfsburg í vil, eftir tvennu frá Hollendingnum Lineth Beerensteyn, og Jule Brand bætti svo við þriðja marki Wolfsburg sem vann 3-1 útisigur.
Wolfsburg er því með 28 stig, stigi á eftir toppliðum Frankfurt og Leverkusen, eftir 12 leiki.
Sú staðreynd að Sveindís sé ítrekað á varamannabekk Wolfsburg gæti ýtt undir það að hún yfirgefi félagið þegar samningur hennar við það rennur út næsta sumar. Hún spurð út í framtíð sína hjá félaginu, eftir sigurinn gegn Roma á miðvikudag, en gaf lítið uppi:
„Ég hef ekkert verið að hugsa um þetta, heldur bara að gera mitt besta fyrir Wolfsburg og fá eins margar mínútur og ég get. Vonandi munum við í náinni framtíð vita hvað ég geri en ég er mjög ánægð hjá Wolfsburg svo það er allt enn opið,“ sagði Sveindís.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Leverkusen fyrr í dag þegar liðið jafnaði Frankfurt á toppi deildarinnar með 2-0 sigri gegn Freiburg. Karólína kom inn á þegar um hálftími var eftir, í stöðunni 1-0, en Leverkusen innsiglaði sigurinn með marki seint í uppbótartíma. Hin tvítuga Sofie Zdebel og hin 18 ára Delice Boboy skoruðu mörk Leverkusen.
Þetta var fimmti sigur Leverkusen í röð í deildinni og eins og fyrr segir eru Leverkusen og Frankfurt jöfn á toppnum með 29 stig eftir 12 leiki. Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar í Bayern eru svo þremur stigum neðar, með leik við Potsdam á morgun til góða.
Amanda ekki með Twente
Amanda Andradóttir, sem skoraði um síðustu helgi í 4-0 sigri gegn Heerenveen, var ekki í leikmannahópi Twente í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Liðið tapaði 2-1 gegn Zwolle og er í 4. sæti hollensku deildarinnar með 17 stig eftir níu leiki.
Hildur tekinn af velli eftir fyrri hálfleik
Á Spáni var fjórða landsliðskonan, Hildur Antonsdóttir, í byrjunarliði Madrid CFF sem tapaði á útivelli gegn Granada, 1-0.
Hildur var önnur tveggja leikmanna Madridarliðsins sem skipt var af velli eftir fyrri hálfleikinn, en staðan var 1-0 að honum loknum.
Eftir sigurinn er Granada þremur stigum fyrir ofan Madrid sem situr í 10. sæti af 16 liðum og er með 16 stig eftir 13 leiki.