Gummersbach byrjaði mun betur og skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins. Sú forysta hélst þó aðeins í um stundarfjórðung áður en heimamenn Kiel komu sér inn í leikinn og jöfnuðu.
Spennan hélst þar til um miðjan seinni hálfleik en þá tókst Kiel að taka afgerandi forystu sem liðið lét aldrei af hendi. Gummersbach minnkaði muninn mest niður í tvö mörk en komst ekki nær og er úr leik í bikarkeppninni þetta árið.

Emil Madsen hjá Kiel endaði markahæstur í leiknum með átta mörk. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach og Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú.
Kiel er sigursælasta lið í sögu bikarkeppninnar með tólf titla, nú síðast árið 2022. Gummersbach varð fimm sinnum bikarmeistari fyrstu tíu árin sem keppnin var haldin en hefur ekki hampað titlinum síðan árið 1985.
Mögulegir andstæðingar Kiel
Ásamt Kiel komust Balingen/W og Rhein Neckar-Löwen áfram í undanúrslit.
Síðar í kvöld fer svo fram síðasti leikur átta liða úrslita milli Melsungen og Flensburg. Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson eru leikmenn Melsungen.