Skoða á efnafræðilegt ástand Vatnsmýrinnar og Tjarnarinnar og leita að uppruna mengunar í verkefninu sem gengur undir heitinu LIFE ICEWATER, að sögn Reykjavíkurborgar. Á grundvelli þeirra upplýsinga eigi að skipuleggja aðgerðir til þess að draga úr mengun og fyrirbyggja frekari mengun þrátt fyrir fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.
Reykjavík er einn 22 innlendra aðila sem fá hlutdeild í 3,5 milljarða króna styrknum sem Umhverfisstofnun hlaut úr svonefndri LIFE-áætlun Evrópusambandsins. Honum er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar hér á landi.
Samtals fékk Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar; Orkuveitan, Veitur og Orka náttúrunnar um hálfan milljarð króna í styrk úr LIFE-ICEWATER. Styrkirnir eru til sex ára.
