Ungur ökumaður var í gær handtekinn fyrir að keyra á 147 kílómetra hraða í Árbænum, þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar. Sá var ekki orðinn átján ára gamall og var málið afgreitt á vettvangi með aðkomu forráðamanns, samkvæmt dagbók lögreglu.
Annar ökumaður, sem var búinn að vera með bílpróf í eina viku, var svo kærður fyrir að keyra á 141 kílómetra hraða á sömu slóðum, þar sem hámarkshraði var einnig áttatíu kílómetrar.
Í dagbókinni segir að talsverð hálka hafi verið á vettvangi og því hafi mikil hætta fylgt hraðakstri þessa óreynda ökumanns, sem hann hafi engan veginn verið í stakk búinn til að takast á við. Málið var afgreitt með sama hætti og það fyrra.
Lögreglunni barst tilkynning um mann sem var vopnaður hnífi á skemmtistað í miðbænum í nótt. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Nokkrar tilkynningar um menn „með vesen og ofbeldistilburði“ bárust lögreglu í nótt.