Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Tveggja Turna Tal. Knattspyrnuþjálfarinn Jón Páll Pálmason fær þar til sín góða gesti úr íþróttaheiminum og að þessu sinni voru Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson gestir en þeir hafa starfað saman um árabil.
„Ég er nýbúinn að segja að ég sé hættur svo ég kem ekki til greina,“ sagði Ólafur kíminn undir lok þáttar þegar Jón Páll minntist á að A-landsliði karla væri án þjálfara. Ólafur stýrði landsliði karla frá 2007 til 2011.

„Ég vill fá útlending eða Rúnar Kristinsson. Tek engan annan hæfan í þetta. Málið dautt,“ sagði Ólafur síðan um hvern hann vill sjá taka við íslenska landsliðinu karla megin. Sigurbjörn tók undir með að vilja fá útlending í starfið.
„Þá er ég að tala um þessa reynslu. Ég vill kannski ekki fá ellilífeyrisþega frá Norðurlöndum aftur. Höfum prófað það nokkrum sinnum en ég vill fá eitthvað aðeins ferskara,“ bætti Ólafur við en hinn 71 árs gamli Åge Hareide var síðast þjálfari landsliðsins.
Að endingu var Ólafur spurður hvort hann væri með einhver nöfn á blaði.
„Nei ég treysti Þorvaldi (Örlygsson, formanni Knattspyrnusambands Íslands) til að leysa þetta mál.“