Þetta staðfestir Jón í samtali við fréttastofu. Hann segir tilefnið skyggja á þá staðreynd að hann sé á leið inn á þing.
„Bjarni hefur náttúrulega verið yfirburðamaður í íslenskum stjórnmálum um langt skeið. Við eigum saman tæplega 18 ára feril á þingi og höfum átt náið samstarf. Það skyggir á að hann skuli vera að hverfa af vettvangi, og verða mikil tímamót bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og íslenska pólitík.“
Var tilbúinn ef kallið kæmi
Jón var í fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum í nóvember, en flokkurinn náði fjórum mönnum inn á þing í kjördæminu. Jón var því fyrsti varaþingmaður flokksins í Kraganum.
Hann segist hafa verið tilbúinn að takast á þær skyldur að koma inn á þing, frá því úrslitin urðu ljós. Þeim skyldum muni hann ekki bregðast.
„Ég mun koma inn á þing núna, fyrst [Bjarni] tekur þessa ákvörðun.“
Útilokar ekkert
Ljóst er að Sjálfstæðismenn munu velja sér nýjan formann á komandi landsfundi, sem fyrirhugaður er í febrúar.
Hefur þú eitthvað íhugað að sækjast eftir embætti formanns?
„Það verður bara að koma í ljós. Ég hef í sjálfu sér ekkert verið að velta því fyrir mér. Þetta ber svolítið brátt að allt saman, og verður bara að koma í ljós hvernig fer með landsfund og nýja forystu í flokknum.“
En þú útilokar það ekki?
„Útilokar það einhver í stjórnmálum, að takast á við svona ábyrgð? Ég veit það ekki. Það er eitthvað sem ég hef ekki leitt hugann að.“