Villan er við svokallaða Reykjavíkurgötu á Adeje og ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar taka hana á leigu. Svava Johansen verslunareigandi leigði sömu villu þegar hún fagnaði sextugsafmæli sínu á eyjunni í fyrra.
Mbl greindi frá því í gær að nóttin á villunni, sem heitir Finca La Rosa de Los Vientos, kostar 290 þúsund og þarf að leigja hana í fimm daga að lágmarki.

Á myndum af samfélagsmiðlum að dæma byrjaði partýið eftir hádegi og naut fólk sín vel í sólinni. Boðið var upp á mat og drykki auk þess sem gestir mættu með uppblásna kúta og dýr sem fylltu sundlaugina á svæðinu.
Sagðist öfunda Íslendinga í lægðinni
Ásgeir Kolbeins ávarpaði gesti sína af svölum villunnar á meðan „The Imperial March“ eftir John Williams úr Stjörnustríði spilaði undir.
„People of Tenerife. Welcome to My Birthday!“ sagði hann síðan við mikinn fögnuð viðstaddra.

„Ég vil bjóða ykkur hjartanlega velkomin í afmælið hér á Tenerife. Það er akkúrat gul lægð að nálgast landið heima. Við öfundum það fólk auðvitað innilega,“ sagði hann einnig í ræðu sinni.
Kolbeinn, faðir Ásgeirs, tók líka til máls og var það mál manna að þar færi yngsti níræði maður landsins.

Dönsuðu við Elvis
Elvis Presley eftirherma kom við í partýinu og var Rúrik Gíslason knattspyrnukappi, sem var meðal gesta, fenginn til að klæða sig í Elvisgallanna sem fór honum einkar vel.

Afmælisbarnið Ásgeir og eiginkona hans Hera Gísladóttir stigu dans á grasbalanum undir „Can't Help Falling in Love“ í flutningi Presley.
„Frábært að ég tók þessa skó með mér út. Ég held ég hafi í alvörunni notað þá svona í um það bil þrjátíu sekúndur, svo var ég bara kominn á tásurnar,“ sagði Hera, kona Ásgeirs, í Instagram-hringrás sinni í morgun.

Selma Björnsdóttir tók vel þekkta slagara auk þess sem Auddi og Steindi hlóðu í hverja bombuna á fætur annarri. Partýið virðist hafa staðið í fleiri klukkutíma og eru myndir og myndbönd úr veislunni víða sýnileg á Instagram.

Meðal gesta í veislunni voru fyrrnefndir fjölmiðla- og listamenn og makar þeirra en líka Regína Ósk og Svenni, Andri Jónsson og Guðríður Gunnlaugsdóttir eigendur Barnaloppunnar, svo ekki sé minnst á Gerði Arinbjarnar í Blush,

Þarna voru líka sparkspekingarnir Mikael Nikulásson og Hjörvar Hafliðason, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Egill Einarsson og Gurrý Jóns, Halldór Kristinn Harðarson kenndur við Sjallann, María Lovísa Árnadóttir og Hanna Lilja Oddgeirsdóttir hjá GynaMedica, Garðar Gunnlaugsson og Fanney Sandra Albertsdóttir, Gylfi Þór Gylfason, Samúel Bjarki Pétursson og Júlía Rós Júlíusdóttir, Gústi B og Hafdís Sól Björnsdóttir og svo lengi mætti telja.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr veislunni:







