Erlent

Fleiri Kimdátar væntan­legir í Kúrsk: „Það er bara á­fram og á­fram“

Samúel Karl Ólason skrifar
Norðurkóreskur hermaður í haldi Úkrainumanna.
Norðurkóreskur hermaður í haldi Úkrainumanna. Getty/Forsetaembætti Úkraínu

Úkraínskir hermenn í Kúrskhéraði í Rússlandi segja dáta Kims Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafa lært mikið af reynslu síðustu vikna. Þeir sækja fram í stærri hópum en Rússar og án stuðnings skrið- og bryndreka og stoppa þeir ekki eða hörfa vegna mikils mannfalls.

Úkraínumenn segja þá vel á sig komna og hugrakka.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður herafla Úkraínu, sagði fyrr í vikunni að af þeim um ellefu til tólf þúsund Kimdátum sem sendir hefðu verið til Kúrsk hefði um helmingur þeirra fallið eða særst á undanförnum vikum.

Bandarískir embættismenn telja nærri lægi að þriðjungur þeirra hafi fallið eða særst frá því þeir byrjuðu að berjast í Kúrsk í byrjun desember.

Með hermönnum er talið að um fimm hundruð yfirmenn úr hernum að minnsta kosti þrír herforingjar hafi einnig farið til Rússlands.

New York Times hefur eftir háttsettum embættismanni í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að von sé á liðsauka frá Pyongyang. Kim muni líklega senda fleiri dáta til Rússlands á næstu tveimur mánuðum.

Úkraínskir hermenn í Kúrskhéraði.Getty/Scott Peterson

Rússar hafa fengið milljónir sprengikúla fyrir stórskotalið frá Norður-Kóreu og er talið að um helmingur allra slíkra skota sem Rússar nota á degi hverjum komi þaðan. Þeir hafa einnig fengið töluverðan fjölda stórskotaliðsvopna og eldflauga frá Norður-Kóreu.

Frá upphafi hafa ráðamenn í Rússlandi neitað því að norðurkóreskir hermenn taki þátt í átökunum og hafa reynt að fela aðild þeirra með því að útvega þeim rússneska herbúninga og vegabréf sem segja mennina frá austurhluta Rússlands.

Sjá einnig: „Kimdátar“ berjast og falla í Kúrsk

Blaðamenn New York Times hafa rætt við fjölda úkraínskra hermanna og yfirmanna, auk bandarískra embættismanna, og skoðað myndefni frá Úkraínumönnum til að ná utan um það hvernig Kimdátar hafa barist í Kúrsk.

Mannfallið ásættanlegt fyrir reynslu

Illa hefur gengið að samræma aðgerðir rússneskra hermanna og Kimdátanna og er vitað til þess að minnsta kosti tvisvar sinnum hefur til átaka þeirra á milli, vegna tungumálaörðuleika.

Þess vegna eru þeir taldir hafa fengið sín eigin svæði til að sækja fram, án þess að Rússar komi þar nærri.

Í einni árás norðurkóreskra hermanna sóttu þeir fram yfir nokkra kílómetra, undir eftirlit dróna, og urðu fyrir miklu mannfalli á leiðinni vegna stórskotaliðsárása og sprengja sem varpað var með drónum.

Um fimmtíu Kimdátar komu svo saman í trjálínu nærri víglínu Úkraínumanna. Sumir þeirra voru sýnilega særðir en hörfuðu ekki. Að endingu sóttu þeir fram í fimm til átta manna hópum en þrátt fyrir mikið mannfall hættu þeir árásunum ekki.

„Það er bara áfram og áfram,“ sagði einn úkraínskur hermaður. Hann sagði Kimdáta mjög agaða.

Starfsmenn leyniþjónusta Suður-Kóreu sögðu þessa hernaðartækni eiga rætur í Kóreustríðinu á árum áður. Hins vegar líti ráðamenn í Norður-Kóreu á mannfallið sem nauðsynlegt til að öðlast næga reynslu af nútímahernaði.

„Það er eins og þeir komi hingað sérstaklega til að deyja og að þeir viti það sjálfir.“

Þetta sagði annar úkraínskur hermaður.

Kimdátarnir eru farnir að reynast Úkraínumönnum erfiðir og þá sérstaklega hvernig þeir sækja sífellt fram. Það þreyti úkraínska hermenn og valdi mannfalli og skorti á skotfærum sem erfitt sé að bæta úr í fljótu bragði.

Úkraínumenn segja erfitt að berjast við einn af stærstu herjum heims en það sé nánast ómögulegt að berjast við tvo þeirra.

AK-12 riffill sem tekinn var af líki norðurkóresks hermanns.Getty/Ed Ram

Sagðist hafa sýnt Kim vanþakklæti

Embættismenn í Úkraínu segja tvo hermenn sem tókst að handsama hafa varpað frekara ljósi á aðgerðir Kimdátanna í Kúrsk. Þar að auki hafa dagbækur og annað bréfsefni fundist á líkum hermanna, sem bandarískir embættismenn sögðu NYT að virtist raunverulegt.

Í einni dagbók skrifaði Kimdáti að hann væri stoltur af þjónustu sinni í Rússlandi vegna ótilgreinds brots hans gegn Kommúnistaflokknum í Norður-Kóreu.

„Ég sveik flokkinn sem treysti mér og sýndi æðsta leiðtoganum vanþakklæti. Syndir mínar eru ófyrirgefanlegar, en móðurlandið hefur gefið mér leið að endurlausn, að nýju lífi.“

Hann skrifaði einnig um aðferðir til að skjóta niður sjálfsprengidróna. Þar sagði hann að einn hermaður væri sendur úr skjóli sem tálbeita meðan aðrir hermenn reyndu að skjóta drónann niður.

Tálbeitan þyrfti að stoppa á einhverjum tímapunkti og þá stoppaði dróninn einnig. Þá væri best að skjóta hann niður.

Úkraínumenn segjast hættir að eltast við staka Kimdáta með sjálfsprengidrónum og þess í stað leiti þeir að fleiri í hópum.

Þjálfaðir til að vera ekki teknir lifandi

Það að handsama Kimdáta hefur reynst sérstaklega erfitt. Í samtali við NYT segja hermenn að þeir séu þjálfaðir til að láta ekki góma sig lifandi. Rússar fylgist líka með þeim með eftirlitsdrónum og sjái þeir að einhverjir séu að verða handsamaðir séu sjálfsprengidrónar sendir til að fella bæði úkraínsku hermennina og þá norðurkóresku.

Wall Street Journal sagði nýverið frá því að Úkraínumenn hefðu myndað sérstaka sérsveit sem hefði það markmið að handsama hermenn frá Norður-Kóreu. Þar kom einnig fram að þeir væru stundum felldir af eigin félögum og að þeir eigi það einnig til að svipta sig lífi eða sprengja sig í loft upp og reyna að ná úkraínskum hermönnum í leiðinni.

Einn sem sprengdi sig í loft upp kallaði nafn Kims Jong Un þegar hann tók pinnann úr handsprengju sinni.

Kafteinn í þessari sérsveit, sem gengur undir nafninu Green, segir einni að Kimdátarnir séu mjög agaðir, vel á sig komnir líkamlega og tilbúnir til að láta lífið fyrir málstað þeirra.

Þegar þessi hermaður var handsamaður ætlaði hann fyrst að sprengja sig í loft upp en úkraínskum hermönnum tókst að tala hann til.Getty/Forsetaembætti Úkraínu

Gómuðu einn í umsátri

Green sagði blaðamanni WSJ frá tilraun til að handsama hermenn frá Norður-Kóreu sem gerð var þann 9. janúar. Sérsveitarmennirnir höfðu fylgst með Kimdátum í nokkra daga og skipulögðu umsátur sem heppnaðist vel.

Þegar þeir voru að skoða hermenn sem lágu í valnum, í leit að særðum Kimdáta sem hægt væri að handsama sá Green einn sem lyfti handsprengju í loftið, eins og hann væri að hóta því að sprengja sig í loft upp.

Green reyndi, fyrst á kóresku og síðar á rússnesku, að sannfæra særða hermanninn um að hann ætlaði að hjálpa honum. Hann notaði síðan handahreyfingar til að sýna að hann vildi hlúa að sárum hans og heppnaðist það að endingu. Kimdátinn lagði handsprengjuna frá sér.

Þegar þeir voru að bera hermanninn á brott hófu Rússar mjög umfangsmikla stórskotaliðsárás sem Green segir að hafi bersýnilega verið ætlað að koma í veg fyrir að þeim tækist að handsama hermanninn.

Þegar árásunum linnti voru mennirnir sóttir og Kimdátinn fluttur í yfirheyrslu. Nokkrum dögum síðar birti Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, myndband af yfirheyrslu tveggja hermanna frá Norður-Kóreu, en annar þeirra var maðurinn sem Green og félagar hans handsömuðu.

Sjá einnig: Tveir norðurkóreskir hermenn sagðir í haldi Úkraínuhers

Green og félagar hans voru heiðraðir af Selenskí síðasta föstudag.

Hinn Kimdátinn var handsamaður af öðrum hermönnum í Kúrsk. Sá var verulega særður á höfði og kjálka.

Hér má sjá myndband af yfirheyrslu mannsins sem handsamaður var af sérsveitinni. hann segist tvítugur og heldur því fram að hann hafi haldið að ferðin til Rússlands væri æfingaferð. Á einum tímapunkti 

Ekki liggur fyrir hvað verður um þá Kimdáta sem Úkraínumenn hafa handsamað. Selenskí hefur sagst vilja skipta þeim fyrir úkraínska hermenn í haldi Rússa en koma verður í ljós hvort það sé í boði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×