Íslenska liðið er búið að koma sér í afar góð mál, sérstaklega með sigrunum gegn Slóveníu og svo gegn Egyptalandi í gærkvöld.
Engu að síður er ekkert í hendi enn. Strákarnir okkar ráða þó eigin örlögum og geta með sigri á Króötum endað efstir í sínum milliriðli, sem sennilega myndi forða þeim frá að mæta Evrópumeisturum Frakka í 8-liða úrslitum.
Tvö efstu liðin í hverjum milliriðli komast í 8-liða úrslitin. Ef lið eru jöfn að stigum ráða innbyrðis úrslit á milli þeirra stöðu í riðlinum.
Svona gæti leið Íslands á HM litið út. Stöðuna í milliriðlum má sjá hér að neðan, úrslit og komandi leiki, en gert er ráð fyrir að Ungverjar komist með Frökkum áfram úr milliriðli II, og Íslendingar með Egyptum úr milliriðli IV. Það gæti auðvitað breyst.
Hvenær dugar að vinna Argentínu?
Það er hættulegt að gefa sér eitthvað í íþróttum en við skulum samt gefa okkur það að Ísland vinni Argentínu í lokaumferð milliriðilsins, á sunnudaginn.
Það dugar Íslandi ef liðið vinnur Króatíu á morgun, gerir jafntefli eða tapar með að hámarki þriggja marka mun.
Það er aðeins ef að Ísland tapar með fjögurra marka mun eða meira gegn Króötunum hans Dags Sigurðssonar sem að strákarnir okkar gætu misst af sæti í 8-liða úrslitum.
Þeir þyrftu þá að treysta á hjálp frá Slóvenum sem eiga eftir að mæta bæði Egyptalandi og Króatíu. Ef Slóvenía kroppar stig af öðru eða báðum þessara liða þá dugar Íslandi að vinna Argentínu til að komast í 8-liða úrslit.
Hvað ef þrjú lið enda jöfn?
Innbyrðis úrslit ráða stöðu ef lið enda jöfn. Ef til dæmis Ísland, Egyptaland og Króatía enda efst og jöfn að stigum eru Egyptar með +1 í markatölu (3 marka tap gegn Íslandi og 4 marka sigur gegn Króatíu) og öruggir um sæti í 8-liða úrslitum.
Ísland mætti þá hafa tapað með að hámarki 3 mörkum gegn Króatíu til að enda ekki með verstu innbyrðis markatöluna af þessum þremur.
Slóvenar eru staðráðnir í að gera betur en í fimm marka tapinu gegn Íslandi og gætu í raun verið búnir að vinna Egypta á morgun, áður en Ísland og Króatía mætast. Það myndi létta pressunni af okkar mönnum.
Eins og fyrr segir skiptir hins vegar ekki bara máli fyrir Ísland að vera annað tveggja liða sem komast áfram í 8-liða úrslit, heldur gæti sigur í milliriðlinum orðið til þess að liðið mæti lakari andstæðingi en Frakklandi í 8-liða úrslitunum (sennilega Ungverjalandi eða Austurríki sem mætast í kvöld), og þannig opnað á meiri möguleika á að Ísland komist í undanúrslit og spili um verðlaun á mótinu.