Handbolti

Á­fall fyrir Noreg: Sagosen meiddur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Líklega hefur Sander Sagosen spilað sinn síðasta leik á HM.
Líklega hefur Sander Sagosen spilað sinn síðasta leik á HM. epa/Stian Lysberg Solum

Noregur hélt möguleikum sínum á að komast í átta liða úrslit HM á lífi með sigri á Spáni, 25-24, í gær. Norðmenn gátu þó ekki leyft sér að gleðjast mikið eftir sigurinn því þeirra besti maður meiddist í leiknum gegn Spánverjum.

Sander Sagosen meiddist undir lok leiksins í Bærum í gær. Í dag greindi norska handknattleikssambandið frá því að hann hefði tognað á kálfa og yrði líklega frá næstu fjórar vikurnar.

Þrátt fyrir að það þurfi kraftaverk til að Sagosen spili aftur með Noregi á HM ætlar Jonas Wille, þjálfari norska liðsins, ekki að kalla mann inn í hópinn í staðinn fyrir hann.

Noregur hefur valdið vonbrigðum á heimavelli á HM og tapaði tveimur af þremur leikjum sínum í riðlakeppninni. 

Sigurinn í gær gefur norska liðinu von en það þarf enn að vinna báða leiki sína sem eftir eru í milliriðli 3 og treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum. Noregur mætir Síle á morgun og Svíþjóð á sunnudaginn.

Sagosen hafði ekki náð sér á strik áður en hann meiddist gegn Spáni í gær. Hann hefur aðeins skorað ellefu mörk á HM og er með 38 prósent skotnýtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×