Philadelphia Eagles og Kansas City Chiefs tryggðu sér í gær sæti í Super Bowl eftir sigra á Washington Commanders og Buffalo Bills. Lið Chiefs freistar þess í ár að vinna titilinn þriðja skiptið í röð en Philadelphia Eagles vann síðast árið 2017.
Þessi úrslitaleikur NFL-deildarinnar fær gríðarlega mikið áhorf í Bandaríkjunum á hverju ári og var leikur Kansas City Chiefs og San Francisco 49ers á síðasta ári vinsælasti sjónvarpsviðburður allra tíma en 123,7 milljónir áhorfenda horfðu á leikinn vestanhafs.
Auglýsingar í kringum leikinn vekja ávallt mikla athygli enda leggja auglýsendur mikið á sig til að ná athygli áhorfenda. Auglýsingaplássið er hvergi dýrara og þurfa auglýsendur að leggja um sjö milljónir dollara á borðið sem gerir tæpan milljarð íslenskra króna fyrir sekúndurnar þrjátíu.
Þetta svimandi háa verð fælir þó fyrirtækin ekki frá, nema síður sé. Öll auglýsingapláss í útsendingu frá Super Bowl seldust upp í nóvember en leikurinn verður sýndur á Fox sjónvarpsstöðinni.