Tíska og hönnun

Kafla­skil í tískunni þegar hann var tíu ára

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, er viðmælandi í fyrsta þætti af Tískutali.
Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, er viðmælandi í fyrsta þætti af Tískutali. Vísir/Vilhelm

„Það er algjör vítamínsprauta að fara í „illuð“ föt,“ segir rapparinn Árni Páll Árnason betur þekktur sem Herra Hnetusmjör. Hann er viðmælandi í fyrsta þætti af Tískutali þar sem hann fer yfir klæðaburðinn, eftirminnileg tískumóment, hverju hann klæddist á fyrsta gigginu, ógleymanleg kaup sem hann gerði tíu ára gamall í Flórída, hvernig stíllinn hans hefur þróast samhliða föðurhlutverkinu og margt fleira.

Hér má sjá viðtalið við Herra Hnetusmjör:

Ekki klæddur eins og hinir foreldrarnir

Herra Hnetusmjör skaust upp á stjörnuhimininn fyrir tæpum tíu árum síðan og er einn þekktasti rappari landsins. Samhliða tónlistinni hefur hann verið áberandi í sjónvarpi, bæði sem dómari í Idolinu og sem meðlimur strákasveitarinnar Iceguys.

Klæðaburður Árna Páls hefur í gegnum tíðina einkennst af hátískuflíkum og glingri.

„Ég er orðinn lágstemmdari í seinni tíð. Ég hef róast aðeins í hátísku kaupunum og ég er kominn hringinn,“ segir Árni spakur. Aðspurður hvort það hafi þróast svoleiðis í takt við föðurhlutverkið segist hann ekki alveg viss.

„Ég finn alveg fyrir því þegar ég sæki strákana mína stundum að ég er kannski ekki klæddur eins og hinir foreldrarnir. Ég er kannski bara í risavöxnum rifnum gallabuxum með sólgleraugu og þykka keðju. Ég er reyndar ekki með grill-in, ég tek þau úr mér,“ segir hann hlæjandi en grill er einhvers konar tannglingur sem hefur verið gríðarlega vinsælt hjá röppurum um allan heim.

Keypti elífðarflíkur tíu ára gamall

Árni Páll hefur alla tíð verið samkvæmur sjálfum sér í fatavali, allavega frá því hann var tíu ára gamall.

„Það urðu kaflaskil í mínu lífi þegar ég fór til Flórída í fimmta bekk og labbaði inn í Marc Ecko búð. Ég fékk svolítið að leika lausum hala þarna og kom svo heim í risastórum hettupeysum með keðjur um hálsinn. Ég á enn þá jakka og hettupeysur sem ég keypti í þessari Flórída ferð sem passa á mig.“

Þar á meðal er blár satín jakki sem hann rokkar í tónlistarmyndbandi við lagið Joey Cypher.

Sömuleiðis leggur hann upp úr því að fara vel með fötin sín.

„Mig langar að búa til geymslu eða kjallara sem hægt er að róta í eftir tuttugu ár og er komið hringinn. Ég vona að strákarnir mínir muni kunna að meta það.“

Það er frelsandi að geta klætt sig eftir eigin höfði í vinnunni og á það svo sannarlega við um Árna Pál. Hann kemur fram næstum hverja einustu helgi og hefur sömuleiðis fengið að njóta sín í klæðaburði í sjónvarpi. Fyrir Idolið keypti hann alls kyns litríkar silkiskyrtur í hátísku hönnun.

Ég vildi ekki fara í jakkaföt. Mér fannst það eitthvað of „basic“. Það er algjör vítamínsprauta að fara í illuð föt. Ef manni finnst maður vera illaður þá verður maður illaður.“

Það venst að rokka sólgleruaugun inni

Grillin hans Árna eru í miklu uppáhaldi hjá honum og þegar hann var búinn að safna sér nægilegum pening fór hann beinustu leið að kaupa þau.

Þetta var eitthvað sem ég ætlaði alltaf að gera, segir hann kíminn og bætir við:

„Sólgleraugu eru líka klárlega hluti af mínu lúkki. Ég er alltaf með sólgleraugu.“

En er ekkert erfitt að sjá með sólgleraugun á sér innanhúss?

„Stundum þarf maður bara að taka það á sig, alveg eins og maður er stundum í ekkert það þægilegum fötum en lúkkið er illað. Það venst líka og svo á ég mikið af sólgleraugun í mis dökku gleri.“

Árni byrjaði að rappa um ellefu ára aldur og fór svo að gera það af alvöru eftir grunnskóla.

„Þegar ég var ellefu ára byrjaði að rappa með félaga mínum og kallaði mig Hnetusmjör í djóki. Svo byrja ég að rappa af alvöru kannski sextán ára og ákvað að halda í gamla nafnið.“

Aðspurður hvort hann sé mjög hrifinn af hnetusmjöri segir Árni hlæjandi:

„Ég var alveg hrifinn af því en kannski ekki alveg eins mikið og fólk myndi halda.“

Fór á fullt í flúrin 90 dögum fyrir Airwaves

Húðflúrin eru klárlega ákveðin tíska og eru þau stór hluti af þeirri heild sem Árni setur fram.

„Það er frekar góð saga af öllum þessum húðflúrum, ég er mikið flúraður á báðum handleggjum. Árið 2017 var ég að fara að spila á Airwaves og ég var þá ekki með nein flúr á höndunum. 

Mig langaði að vera í stuttermabol á tónleikunum og vera flúraður,“ segir Árni og þegar einn og hálfur mánuður var til stefnu ákvað hann að gera eitthvað í því og fór á fullt í flúrin.

„Þess vegna er ég með einhverja handsprengju og byssu og alls konar handahófskennda hluti á hendinni. Það þarf ekkert að vera einhver meining á bak við þetta. Svo er annað sem þýðir meira,“ bætir Árni við og bendir meðal annars á flúr af edrú deginum sínum og mömmu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.