„Það er ofurmót í gangi. Masters - en aðalmótið hefst á fimmtudag - massamótið með mörg hundruð spilurum frá öllum heimshornum,“ segir Björn Þorláksson óformlegur upplýsingafulltrúi Bridge-sambandsins.
Mótið var lengi framan af haldið á Hótel Loftleiðum og hefur kallast Bridgehátíð innanlands en Reykjavík Bridge Festival utan landsteinanna. Mótið stendur í fjóra daga og skiptist í tvímenning og svo sveitakeppni.
Íslendingar einkar vel kynntir á alþjóðavettvangi
Forseti Bridgesambandsins og ákafur talsmaður þessa magnaða spils sem er þeirrar (ó)náttúru að það gerir öll önnur spil ómerkileg, er Brynjar Níelsson. Hann segir framtíð Bridge-sins bjarta. Gríðarleg vakning hefur verið á nýliðanámskeiðum sambandsins og hann er sannfærður um að konur, sem hafa lengi verið tregar í taumi, verði orðnar jafn margar karlpeningnum í spilinu áður en langt um líður.

„Við búum svo vel á alþjóðlegan mælikvarða að við Íslendingar erum afar vel kynntir á vettvangi brigde-ins. Við eigum spilara á heimsmælikvarða. Reykjavík Bridge Festival nýtur þess, bestu spilarar heims mæta hingað.“
Brynjar segist reyndar vera hálfgerð skrautfjöður hjá Bridge-sambandinu, aðal sprautan sé Matthías Imsland framkvæmdastjóri. Matthías segir áhuga á hátíðinni í hæstu hæðum.
„Það er von á miklum fjölda af erlendum spilurum til landsins og hefur mótið sjaldan verið jafn sterkt,“ segir Matthías.
Ægisterkir spilarar mæta til leiks
Hann nefnir að hingað komi fjórir af fimm stigahæstu spilurum heims til landsins: Michaeł Klukowski er í 2. sæti heimslistans, Sjoert Brink er í 3. sæti, Bas Drijver er í 4. sæti og Jacek Kalita í 5.sæti heimslistans.
„Af fleiri ægisterkum spilurum má nefna norsku Evrópumeistarana Christian Bakke, Boye Brogeland og Tor Eivind Grude og eru þá ónefndir allir sterkustu keppnisspilarar Íslands.

Ástæðan fyrir því að við fengum World Bridge Tour á undan er að þarna eru heimsmeistarar og evrópumeistarar sem eiga að enda atvinnumótið. Við náum að styrkja okkar hátíð verulega með þessu móti,“ segir Matthías sem skorar á óvana spilara til að láta vaða og skrá sig á mótið.
„Það er ekkert að óttast. Við spilum Bridge-hátíð eftir Monrad-kerfi þannig að óvanir spilarar eru líklegir til að spila við aðra óvana spilara. Eitt eiga allir sameiginlegt, að hafa gaman, þótt sumir sterkustu spilararnir séu að hugsa um árangur,“ segir Matthías.
Ekki allir í þessum líkamlegu íþróttum
Brynjar segir rekstur sambandsins erfiðan og það sé mikið fyrirtæki fyrir fjárvana samband að standa að svo stóru móti.

„Það hefur reynst erfitt að fá fyrirtækin til að styrkja okkur. Við þurfum að taka okkur taki í því, stærstu fyrirtækin hafa verið fest af öðrum greinum, og við þurfum að fara í ákall til atvinnulífsins – að koma og styrkja þetta betur.“
Og það er nú meðal annars til þess sem refirnir eru skornir. Mót af þessari stærðargráðu er öðrum þræði hugsuð til auglýsingar á bridge-inum.
„Menn verða að athuga að ekki eru öll ungmenni eða fólk í þessum „físísku“ íþróttum. Menn skulu ekki gleyma því að bridge, skák og rafíþróttir eru að grípa stóra hópa sem finna sig ekki í öðrum greinum,“ segir Brynjar.
Mikilvægt að tilheyra
Hann segir Bridgesambandið þannig ekki síður mikilvæg íþróttasamtök og hver önnur.
„Það er svo mikilvægt að vera hluti af félagi. Ég er Valsari frá blautu barnsbeini, við höldum hópinn, við hittumst, lærðum að tapa og vinna. Íþróttafélög hafa haldið um öll börn og unglinga landsins um árabil. Þetta er ótrúlega mikilvægt. Bridge, skák og rafíþróttir eru að grípa ákveðna hópa sem ekki finna sig í öðrum íþróttum.“

Brynjar segist gamall íþróttamaður, hann hafi þá farið í bumbubolta.
„En mín helsta skemmtun í dag er bridge. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að spila bridge. Ég fer tvisvar í viku til að spila. Ég vil hitta fólk.“
Brynjar segist vera í tveimur klúbbum sem heita Krummaklúbburinn og svo Oddfellow og Súgfirðingar. Svo eru eldri spilarar að spila bæði í Hafnarfirði og Reykjavík.
„Margir spila á hverjum degi og svo hefur verið mikil aukning hjá konum, mikil aukning í nýliðanámskeið og ef vel er haldið á spilunum eru bjartir tímar framundan.“
Hvað er þetta með Framsóknarflokkinn og bridge?
En ætlar þú að spila sjálfur?
„Jájá. Ég tek þátt í sveitakeppninni. Forsetinn verður að taka þátt. En ég er bara að spila um helgina, á laugardag og sunnudag.“
Brynjar er í sveit sem er kennd við Hirsluna húsgangaverslun.
„Þar eru ásamt mér Guðmundur Ágústsson frændi minn, lögmaður, og fyrrverandi þingmaður borgaraflokksins. Hann var hjá Alberti. Leifur Aðalsteinsson er annar, eigandi Hirslunnar og Karl Ómar Jónsson sem var kokkur í gamla daga. Og svo eru þarna Friðrik Sigurðsson og Ingimundur Guðmundsson.

Sko, þetta eru svokallaðir miðlungs spilarar, við getum spilað við alla en erum engir snillingar. Öfugt við til dæmis Birki Jón Jónsson Framsóknarmann sem er sjení. Hann hefur náð því sem mér hefur mistekist, sem er að grenna sig…“
Talið leiðist yfir svo í aðra en tengda sálma; hina flóknu spurningu um hvernig það megi vera að bridge-snillingar leynist í Framsóknarflokknum? Enn það er önnur saga.