Bakhtiyor Alimov og Sevara Alimova eru frá Úsbekistan en búa í Ohio í Bandaríkjunum. Þau voru um borð í flugvél Uzbekistan Airways á leið til New York í gær ásamt fjórum börnum sínum þegar Sevara, sem var komin átta mánuði á leið, fann að eitthvað væri að.
„Ég tók dóttur mína upp og þá fann ég verk í maganum. Svo sá ég að það kom blóð. Ég sagði flugfreyjunni það og að barnið væri að koma. Það var mikið áfall,“ segir Sevara.
Áhöfnin athugaði hvort læknir væri um borð og viti menn, þeir voru þrír og ein ljósmóðir. Sevara telur að einungis korteri síðar hafi sonur þeirra hjóna komið í heiminn. Vélin var þá á flugi yfir Grænlandi.
„Þau breiddu yfir hana og svo heyrðum við barnið gráta. Svo sá ég að þarna var barnið, nýfætt barn. Allir í flugvélinni klöppuðu,“ segir Bakhtiyor.

Rúmlega sjötíu börn hafa fæðst í háloftunum síðan það gerðist fyrst árið 1929. Áhöfn vélarinnar ákvað að snúa henni við og lenda á Keflavíkurflugvelli þaðan sem Sevara og sonurinn voru flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bæði móður og barni heilsast vel og þau stefna á að komast heim til Bandaríkjanna fyrir helgi. Bakhtiyor segist mjög stoltur af eiginkonu sinni og þau þakka öllum þeim sem hafa aðstoðað þau síðastliðinn sólarhring.
„Fólkið er mjög gott. Mjög gott. Ég hef komið til margra landa en þar er fólkið ekki svona. Ég er hrifinn af þessum stað,“ segir Bakhtiyor.