Lífið

„Auð­vitað kom heil­mikið rót á mig eftir þetta“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Í þættinum lýsir Guðmundur átakanlegri lífsreynslu úr starfi björgunarsveitarmannsins.
Í þættinum lýsir Guðmundur átakanlegri lífsreynslu úr starfi björgunarsveitarmannsins. Stöð 2

„Þetta fékk auðvitað á okkur alla. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég þurfti að taka barnið; hvað það var lítið og létt. Og á þessum tíma átti maður sjálfur ung börn. Þannig að það var ýmislegt sem fór í gegnum hugann á þessum tíma,“ segir Guðmundur Oddgeirsson flugbjörgunarsveitarmaður.

Í nýjasta þætti af Útkalli er fjallað um eitt mannskæðasta flugslys í flugsögu Íslands, sem átti sér stað í apríl árið 1986, þegar vél Flugfélagsins Ernis, TF-ORM, brotlenti í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi. Um borð voru sjö manns. Fimm létust, þar af ellefu mánaða gamalt barn. Tveir lifðu af. Menn frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík komust fyrstir á slysstað, tíu og hálfri klukkustund síðar. Þá voru þrír farþegar á lífi í flakinu en einn farþeginn, móðir kornabarnsins, lést í snjóbíl á leið niður af fjallinu.

Auk Guðmundar er rætt við Guðlaug Þórðarsson flugbjörgunarsveitarmann, Kristján Jón Guðmundsson, einn þeirra sem lifði af, og Grímu Huld Blængsdóttur, en unnusti hennar Smári Ferdinandsson, var flugmaður vélarinnar og lét lífið í slysinu. Þáttinn í heild má finna hér að neðan.

Kristján Jón Guðmundsson var 29 ára, sjómaður frá Bolungarvík. Í apríl árið 1986 þurfti hann að komast til Reykjavíkur í aðgerð á hendi eftir slys. Hann rifjar upp í þættinum að leiðindaveður hafi verið þennan dag.

Hann minnist þess að hafa fundið fyrir hristingi, og að hafa ekkert séð út um gluggann á flugvélinni. Hann lýsir augnablikinu þegar vélin var að fara niður- og hvernig allt hans lífshlaup fór í gegnum huga hans á leifturhraða.

„Þetta er eins og kvikmynd sem tekur tvær sekúndur að sýna. Kanski er það vegna þess að maður reiknar með því að þetta sé það síðasta,“ segir hann.

„Ég man að þegar sá út, þegar vélin var komin niður, þá var ekkert nema fjöll í kring. Það fyrsta sem hvarflaði að manni var að það myndi enginn koma að ná í okkur þarna.“

Kristján Jón var annar þeirra sem lifði af fluglysið í Ljósufjöllum.Stöð 2

Vissi að hann var farinn

Gríma Huld Blængsdóttir var á þessum tíma 25 ára gömul, læknanemi, og trúlofuð Smára Ferdinardsyni, 34 ára flugmanni vélarinnar.

Þennan örlagaríka dag, 5. apríl 1986, var hún stödd fyrir sunnan hjá foreldrum sínum í Kópavogi. Í þættinum lýsir hún magnaðri og nánast yfirnáttúrulegri upplifun sem hún varð fyrir.

„Ég var í rólegheitum að ryksuga. Allt í einu finnst mér eins og það sé einhver að kalla á mig. Það var svo merkilegt hvernig tilfinningin kom að, einhver var að kalla á mig með nafni. Ég stoppa og lít á klukkuna og hún er rétt tvær mínútur í hálf tvö. Ég skildi ekkert í þessu, hélt kanski að móðir mín væri þarna. Svo hélt ég bara áfram að gera það sem ég var að gera. Klukkutíma seinna hringir Hörður Guðmundsson í mig og segir mér að vélin sé týnd og að Smára og allrar áhafnarinnar sé saknað,“ segir Gríma.

Gríma missti unnusta sinn, Smára Ferdinardsyni í flugslysinu.Stöð 2

„Maður fór bara einhvern veginn í „trans“, maður einhvern veginn náði þessu ekki. Ég man bara að ég öskraði eitthvað. Ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti að gera. Það er eins og allt í kringum mann, öll hugsun og allt, það bara stoppar,“ segir hún jafnframt en hún kveðst í raun strax hafa vitað að Smári væri látinn.

„Ég vissi það bara, að hann var farinn.“

Seinna meir fékk Gríma afhent úrið hans Smára, sem hann hafði verið með á handleggnum þegar hann lést í slysinu.

Klukkan á úrinu sýndi tvær mínútur í hálf tvö.

„Þetta var nákvæmlega sami tíminn og þegar ég leita á klukkuna mína. Þarna sannfærðist ég um það að þetta voru skilaboð frá honum.“

Undirbýr sig vel í huganum

Allt tiltækt björgunarfólk var ræst út. Framundan var erfið leit í ofsaveðrinu sem geysaði í Ljósufjöllum.

Guðlaugur Þórðarson og Guðmundur Oddgeirsson voru á meðal þeirra sem tóku þátt í leitinni. Þeir lögðu af stað frá Reykjavík, með snjóbíl aftan á vörubílspalli.

„Við leggjum síðan af stað upp í fjallið og mætum þá björgunarfólki sem var búið að vera við leit í fjallinu fyrr um daginn, í afleitu veðri, og voru bara að hætta leit. Þau höfðu á orði við okkur að það væri hvorki stætt né sjáandi þarna uppi, veðrið væri bara slíkt,“ rifjar Guðlaugur upp í þættinum.

„Og það er einn þar sem býðst til þess að lóðsa okkur upp þarna fyrsta hjallann. Og það kemur bara strax í ljós að hann er læknir, hann Friðrik. Og þá var ákveðið að hann skyldi koma með okkur,“ segir Guðmundur.

Hópurinn byrjaði síðan að klifra upp hvern hjallann á fætur öðrum, yfir allmörg snjóflóð sem höfðu fallið.

„Eins og alltaf þegar maður er á leið á flugsslystað, sérstaklega af því að flugslys eru sérstaklega ljót aðkomu, þá þarf maður að undirbúa sig vel í huganum. Ég hef gert það með ákveðnum hætti, undirbý mig vel, og það geri ég fyrst og fremst með því að reyna bara að horfa á þetta sem verkefni, og reyna að loka á allar aðrar hugsanir og sýnir. Ég hleypi þeim ekki inn, heldur horfi á þetta með rörsýn,“ segir Guðlaugur.

„Þarna erum við sem sagt í röðinni fyrir framan snjóbílinn, ég er neðst í leitarlínunni og Ágúst Guðmundsson er við hliðina á mér. Ég er með lélegt leitarljós en svo þegar Ágúst beinir geislunum niður fyrir mig þá sé glitta í eitthvað. Ég tek í höndina á honum og beini ljósinu hans niður brekkuna. Og þá sjáum að þar liggur vélin.“

Dó í fanginu á björgunarsveitarmönnunum

Guðlaugur fór fyrstur inn í flakið, en vængurinn var brotinn og vélin opin að stórum hluta hægra megin. Inni í flakinu blasti við átakanleg sjón; látnir farþegar, þar á meðal einn sem hafði kastast út úr vélinni og annar sem hafði þrýst fram í mælaborðið.

En svo kom hann auga á Kristján Jón sem var með takmarkaðri meðvitund: 

„Hann var mjög illa slasaður, bara á skyrtu hnepptri langt niður á bringu og mjög illa farinn í andliti.“

Kristján var lagður til á teppi fyrir utan snjóbíl. Guðlaugur sá að hinn slasaði var heljarmenni en illa áttaður.

„Hann barðist mjög við okkur. Þegar ég legg hann niður þá rífur hann í mig og dregur mig af öllu afli niður að andlitinu.“ Guðmundur tók svo við: 

„Hann greinilega fann mjög mikið til og ofboðslega sterkur. Hann náði taki á mér og henti mér eins og tusku fram og aftur.“

Guðlaugur grennslaðist fyrir um hvort fleiri væru á lífi inni í flakinu.

„Þá svarar mér maður sem er þarna aftast í vélinni og segist vera þarna lifandi, og konan hans, og þau sé með líkið af litlu dóttur þeirra,” rifjar hann upp.

Guðlaugur segir að í þessum aðstæðum hafi svo sannarlega verið gott að vera með lækni sér við hlið.Stöð 2

„Ég beygi mig niður, og þau eru með barnið á milli sín. Ég tek upp barnið og sný mér við og rétti Valda það. Þá sé ég að konan er mjög illa farin,” segir hann.

„Við tókum þau hjónin út úr bílnum og fórum strax með hana og lögðum hann inn í snjóblinn okkar sem var ekki alveg tilbúinn til sjúkraflutninga. Hann var alveg nýr þessi bíll,mjög léttur, með tjaldi aftan á og við áttum eftir eftir að útbúa björgunarflutningabílinn. Við lögðum hana aftur í bílinn og þá, þegar við vorum með hana í höndunum, þá semsagt deyr hún.”

Man atburðina í smáatriðum

Guðlaugur segir að í þessum aðstæðum hafi svo sannarlega verið gott að vera með lækni sér við hlið.

„Hann sagði okkur að ástandið á konunni hefði verið þannig að hún hafi varla verið með lífsmarki. Það var mikil sáluhjálp fyrir okkur að hafa hann þarna. Þetta var erfitt móment,“ segir hann.

Guðlaugur, Guðmundur og félagar þeirra í björgunarsveitinni reyndu sitt besta til að hlúa að fólkinu. Þeir höfðu kallað á þyrlu en skyggnið var erfitt og að lokum kom snjóbíll frá björgunarsveitinni á svæðið.

„Og síðan hófst bara flutningurinn á þessu fólki,“ segir Guðlaugur.

Guðmundur segist muna þessa atburði nánast í smáatriðum, jafnvel þó að hartnær fjórir áratugir séu liðnir.

„Auðvitað kom heilmikið rót á mig eftir þetta. Þó svo að maður hafi verið búinn að lenda í ýmsu áður, þá var þetta einhvern veginn allt öðruvísi. Það er alltaf erfiðara að koma að vettvangi þar sem fólk er á lífi heldur en þegar allir eru látnir,“ segir hann og Guðlaugur er sama sinnis.

„Ég er búinn að koma að mörgum flugslysum í gegnum tíðina. Fólk fer yfirleitt illa í flugslysum og maður er undir það búinn. En þarna var þó lifandi fólk og að því tilliti var þetta sérstakt, vegna þess að þarna átti sér stað björgun sem slík. Ég er auðvitað þakklátur fyrir það að hafa borið gæfu til þess að geta verið þátttakandi í svona aðgerðum eins og þessari, að vera í hjálparsveit og björgunarsveit þar sem við höfum bæði þjálfun og úthald til þess að geta bjargað fólki.“

Kristján Jón var mikið meiddur í andliti og þurfti að gangast undir stórar aðgerðir þar sem kjálkarnir voru meðal annars víraðir saman. Einnig missti hann sjón á öðru auganu. Aðspurður segist hann hugsa hlýtt til fólksins sem kom að honum og öðrum á slysstað í Ljósufjöllum á sínum tíma.

„Það eru náttúrulega bara góðar hugsanir. Það verður aldrei ofmetið hvað við eigum mikið af fólki sem er tilbúið að fórna tíma og peningum til að hjálpa öðrum. Það er algjörlega ómetanlegt.“

Minningarnar gleymast aldrei

Í lok þáttarins verða áhorfendur síðan vitni að því þegar Kristján, Guðmundur og Guðlaugur hittast á ný, 39 árum eftir slysið.

„Aumingja mennirnir. Þetta eru ekki sérlega góðar þakkir að vera að leggja á sig allar þessar svakalegu vinnu til að ná í einhvern og svo hagar hann sér eins og vitleysingur,“ segir Kristján brosandi. „En sem betur fer gerði ég mér ekki grein fyrir neinu.“

Gríma Huld lýsir því jafnframt í þættinum hvernig líf hennar hélt áfram eftir þetta áfall.

„Maður kynnist öðrum manni og maður eignast börn. Þetta er annað líf, en minningarnar gleymast aldrei,“ segir hún.

„Fólk er alltaf að segja að tíminn lækni öll sár, en það gerir það ekki. Tíminn læknar ekki sárin. En hann sefar sárin með árunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.