Sport

„Ekki allir sem þora að taka síðasta skotið“

Andri Már Eggertsson skrifar
Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar, var nokkuð sáttur eftir jafntefli gegn FH 
Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar, var nokkuð sáttur eftir jafntefli gegn FH  Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan krækti í stig gegn FH í Krikanum. Gestirnir úr Garðabæ enduðu leikinn frábærlega og náðu að jafna á síðustu mínútunni og leikurinn endaði 29-29. Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar var nokkuð sáttur með stigið eftir leik.

„Mér fannst að við átt að fá meira út úr fyrri hálfleik en í seinni hálfleik fannst mér FH betri en við. Ég er ekki sáttur með stig og mig langaði í meira en þetta var fínt úr því sem komið var,“ sagði Hrannar í viðtali við Vísi eftir leik.

Þetta var fyrsti leikur liðanna frá því um miðjan desember en Hrannari fannst það hafa lítil áhrif á spilamennskuna.

„Það var margt fínt og við byrjuðum leikinn vel en samt ótrúlega miklir klaufar og sjálfum okkur verstir og það var margt fínt en margt sem við þurfum klárlega að laga.“

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleik betur og virtust vera með leikinn í hendi sér en Hrannar var afar ánægður með viðsnúning sinna manna.

„Við byrjuðum seinni hálfleik mjög illa og þeir voru verðskuldað komnir fjórum mörkum yfir en það var flott hvernig við komum til baka og 7 á 6 gekk mjög vel hjá okkur og þeir áttu fá svör varnarlega við því.“

Hrannar tók leikhlé þegar tæplega mínúta var eftir sem endaði með því að Hans Jörgen Ólafsson jafnaði sem reyndist síðasta mark leiksins.

„Ég var ánægður með hversu mikið hann steig upp í 7 á 6 í seinni hálfleik. Hann var á skjálftavaktinni í fyrri hálfleik en hann var mjög flottur. Ég var ánægður með hann að taka síðasta skotið. Það eru ekki allir sem þora að taka síðasta skotið en hann sýndi að hann er með pung,“ sagði Hrannar léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×