Aston Villa á­fram en vond bikarvika fyrir Spurs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marcus Rashford þreytti frumraun sína fyrir Aston Villa.
Marcus Rashford þreytti frumraun sína fyrir Aston Villa. Catherine Ivill - AMA/Getty Images)

Aston Villa er komið áfram í sextán liða úrslit FA bikarsins eftir 2-1 sigur gegn Tottenham. Morgan Rogers lagði fyrra mark heimamanna listilega vel upp og skoraði síðan sjálfur í seinni hálfleik. Mathys Tel skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tottenham.

Aston Villa tók forystuna eftir aðeins 57 sekúndur. Morgan Rogers gerði virkilega vel í aðdragandanum, sólaði eiginlega þrjá í einu skrefi, og kom boltanum svo út til vinstri á Jacob Ramsey sem skoraði. Skotið var fremur slakt, beint á markmanninn en hann kom samt ekki vörnum við.

Eftir þessa fjörugu byrjun hélst staðan svo 1-0 þar til í seinni hálfleik. Heung Min-Son fékk frábært færi til að jafna fyrir Tottenham en nýtti það ekki.

Aston Villa komst svo tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik. Eftir stórhættulega sókn var boltinn gefinn fyrir markið, Pedro Porro komst í sendinguna en boltinn datt bara fyrir Morgan Rogers sem potaði honum í netið.

Tottenham tókst ekki að minnka muninn á fyrstu mínútu uppbótartíma, Mathys Tel var þar á ferð með sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir góða fyrirgjöf frá Dejan Kulusevski, en komst ekki nálægt því að jafna eftir það.

Aston Villa er þar með komið áfram í sextán liða úrslit FA bikarsins. Dregið verður um andstæðinga í næstu umferð á morgun, mánudag. Tottenham er dottið út úr báðum bikarkeppnum eftir 4-0 (4-1) tap fyrr í vikunni gegn Liverpool.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira