Íslenski boltinn

Þorri mættur í Stjörnuna og ætlar að vinna titla

Aron Guðmundsson skrifar
Þorri mættur í bláu treyju Stjörnunnar
Þorri mættur í bláu treyju Stjörnunnar Mynd: Stjarnan

Hægri bak­vörðurinn Þorri Mar Þóris­son er orðinn leik­maður Bestu deildar liðs Stjörnunnar og gengur til liðs við félagið frá sænska liðinu Öster.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjörnunnar í dag en hinn 25 ára gamli Þorri þekkir vel til boltans hér heima en hann var á sínum tíma á mála hjá KA og lék 77 leiki fyrir félagið áður en leið hans lá til Svíþjóðar þar sem að hann gekk til liðs við Öster árið 2023. 

Stjörnumenn hafa verið öflugir á leikmannamarkaðnum og Þorri er himinlifandi með að hafa skrifað undir í Garðabænum.

„Ég er virkilega ánægður með að hafa skrifað undir hjá Stjörnunni,“ segir Þorri í tilkynningu Stjörnunnar. „Þótt ég hafi skoðað aðra valkosti, þá var það ljóst um leið og þetta tækifæri kom upp að þetta væri rétti staðurinn fyrir mig. Ég hef heyrt afar jákvæða hluti um félagið, bæði hvað varðar faglegt starf innan þess og þann mikla stuðning sem liðið fær. Að spila fyrir jafn öfluga stuðningsmenn og hér eru verður mikil hvatning fyrir bæði mig og liðið sjálft.“

Hann kemur með skýr markmið inn í lið Stjörnunnar, það er að leggja sitt af mörkum og vinna titla. 

Þorri kom við sögu í 24 leikjum hjá Öster í Svíþjóð, skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×