Handbolti

Aron sá eini sem spilaði í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur gengið vel hjá Aroni Pálmarssyni og félögum í Meistaradeildinni í handbolta í vetur.
Það hefur gengið vel hjá Aroni Pálmarssyni og félögum í Meistaradeildinni í handbolta í vetur. Getty/Sanjin Strukic

Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém unnu góðan útisigur í Meistaradeildinni í handbolta í Rúmeníu í kvöld.

Veszprém vann sjö marka sigur á Dinamo Búkarest, 33-26, eftir að hafa verið 18-13 yfir í hálfleik.

Þetta átti að vera Íslendingaslagur en Haukur Þrastarson spilaði ekki með rúmenska liðinu í kvöld. Bjarki Már Elísson var heldur ekki með Veszprém liðinu.

Aron skoraði eitt mark úr einu skoti en átti einnig eina stoðsendingu og stal einum bolta samkvæmt tölfræði EHF. Hugo Descat var markahæstur hjá Veszprém með níu mörk.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia réðu ekki við Mathias Gidsel og félaga í Füchse Berlin í sömu keppni í kvöld.

Füchse vann leikinn 36-29 eftir að hafa verið 18-14 yfir í hálfleik. Fredericia byrjaði leikinn vel og var þremur mörkum yfir um tíma í fyrri hálfleik.

Gidsel lét sér nægja að skora átta mörk en Lasse Andersson var markahæstur hjá Füchse með tólf mörk.

Einar Þorsteinn Ólafsson var í liði Fredericia og skoraði eitt mark í leiknum. Hann fékk líka tvær brottvísanir.

Veszprém er eitt á toppnum í sínum riðli en liðið hefur unnið tíu af ellefu leikjum sínum.

Dinamo Búkarest er í fimmta sæti með fimm sigra í ellefu leikjum.

Fredericia er síðan í botnsætinu í sama riðli en liðið hefur aðeins náð að vinna einn af ellefu leikjum sínum auk þess að gera eitt jafntefli. Þetta var þriðja tap liðsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×