Sport

Mondo Duplantis gefur út sitt fyrsta lag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mondo Duplantis er byrjaður að hasla sér völl í tónlistinni.
Mondo Duplantis er byrjaður að hasla sér völl í tónlistinni. afp/John MACDOUGALL

Svo virðist sem Mondo Duplantis sé fleira til lista lagt en að lyfta sér yfir stöng og vera bestur í heimi í því. Hann hefur nú sent frá sér sitt fyrsta lag.

Það nefnist „Bop“ og kom út á miðnætti. Duplantis samdi lagið ásamt Rasmus Wahlgren og Emil Berg. 

Að sögn Bergs hittust þeir í hljóðveri þegar Duplantis var að taka upp auglýsingar. Þremenningarnir byrjuðu að skapa og hafa nú samið í kringum í þrjátíu lög. Og nú er það fyrsta komið út en hlýða má á brot úr því hér fyrir neðan.

Duplantis er fremsti stangarstökkvari heims og að margra mati sá besti í sögunni. Hann hefur bætt heimsmetið í stangarstökki tíu sinnum frá 2020.

Hinn 25 ára Duplantis varð Ólympíumeistari í annað sinn í París síðasta sumar. Hann stökk þá yfir 6,25 metra en tuttugu dögum seinna bætti hann heimsmetið enn og aftur þegar hann lyfti sér yfir 6,26 metra á Demantamóti í Póllandi.

Auk þess að vinna tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikum hefur Duplantis unnið tvenn gullverðlaun á HM utanhúss og HM innanhúss og þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×