Gærdagurinn var viðburðarríkur fyrir Duplantis. Hann byrjaði á gefa út sitt fyrsta lag, „Bop“, og sló svo heimsmetið enn einu sinni.
Duplantis keppti á móti í Clermont-Ferrand í gær og tryggði sér strax sigur á því. Hann freistaði þess síðan að slá heimsmetið sitt og gerði það.
Duplantis stökk yfir 6,27 metra og bætti heimsmetið um einn sentímetra. Þetta er í ellefta sinn sem hann slær heimsmetið síðan hann gerði það fyrst fyrir fimm árum síðan. Þá lyfti hann sér yfir 6,17 metra.
Síðan þá hefur Duplantis bætt metið jafnt og þétt og það stendur nú í 6,27 metrum eins og áður sagði.
Duplantis bætti heimsmetið þrisvar sinnum í fyrra, meðal annars á Ólympíuleikunum þar sem hann hrósaði sigri með stökki upp á 6,25 metra. Hann bætti það met svo þremur vikum seinna á móti í Póllandi þegar hann stökk 6,26 metra.
Hinn 25 ára Duplantis getur unnið sín þriðju gullverðlaun á HM innan- og utanhúss í ár.